Bjarni Ólafsson
bjarni@mbl.is
Á tiltölulega skömmum tíma hafa nokkrar ákvarðanir sjávarútvegsráðherra valdið uppnámi meðal útgerðarmanna og sjómanna. Er þar um að ræða frumvarp til laga um leigu á skötuselsveiði utan aflamarks, bann við dragnótaveiðum í ákveðnum fjörðum við landið, ákvörðun um að gefa rækjuveiðar frjálsar og síðast ákvörðun hans um að veita strandveiðiskipum leyfi til makrílveiða.
Viðbrögðin hafa verið harkaleg og ráðherrann sagður taka geðþóttaákvarðanir og sagðar grafa undan kvótakerfinu. Þá hafa þær verið sagðar stefna í hættu vinnu, sem fram hefur farið til að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið.
Þegar ráðherra fékk í gegn lög um að auka skötuselskvóta um 2.000 tonn á næstu tveimur fiskveiðiárum og úthluta útgerðum viðbótarkvótann gegn gjaldi sögðu Samtök atvinnulífsins að með þessu hefðu stjórnvöld rofið stöðugleikasáttmálann og formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Árni Bjarnason, sagði að með breytingunum hefðu þeir verið hafðir að fíflum sem setið hefðu í nefnd um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Er gert ráð fyrir því að ákvörðun ráðherra um að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar muni leiða til þess að Byggðastofnun tapi allt að 1,3 milljörðum króna. 5