Víkverji veltir fyrir sér hvort bókabúðir í Reykjavík segi eitthvað um andlegt atgervi íslensku þjóðarinnar.
Víkverji veltir fyrir sér hvort bókabúðir í Reykjavík segi eitthvað um andlegt atgervi íslensku þjóðarinnar. Geri þær það þá blasir við af heimsóknum í helstu bókabúðir miðbæjarins að Íslendingar hafa hvorki áhuga á umheiminum né á þeim straumum og stefnum sem móta alþjóðamál um þessar mundir.
Úrval erlendra bóka um málefni líðandi stundar í þessum verslunum er fátæklegt svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Á þetta sérstaklega við bækur um stjórnmál, samtímasögu og efnahagsmál. Það er eins og tíminn hafi stöðvast í þessum bókabúðum um leið og Samuel Huntington og Francis Fukuyama sendu frá sér tvær nafntogaðar en vondar bækur við upphaf tíunda áratugar síðustu aldar og það eina sem hafi borist til þessara verslana síðan séu nokkur eintök af æviþáttum Clinton-hjónanna, Baracks Obama, verðbólguboðskap Joseph Stiglitz að ógleymdum skrifum frelsisblysanna Michael Moore og Naomi Klein.
Miðað við úrvalið mætti halda að bókaklúbburinn Rauði öreiginn hefði verið fenginn til að sjá um innkaup á erlendum bókum fyrir þessar verslanir með aðstoð þeirra sem gegndu trúnaðarstörfum fyrir unga jafnaðarmenn á tíunda áratugnum.
Af einhverjum ástæðum er um auðugri garð að gresja þegar kemur að bókum sem kenna lesendanum að græða peninga og öðlast hamingju með því að beita hugarorku eða þá með dæmisögum af músum, munkum á sportbílum, ostum og kjúklingasúpu.