FRÉTTASKÝRING
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Tveir fundir sem haldnir verða á næstunni gætu skipt miklu um stjórnun makrílveiða. Annars vegar tvíhliða fundur Íslendinga með fulltrúum Evrópusambandsins í Reykjavík í næstu viku. Hins vegar strandríkjafundur um makríl í London undir miðjan október, þar sem á að freista þess að ná samkomulagi um leyfilegan heildarafla og skiptingu hans á næsta ári. Á þeim fundi gæti dregið til tíðinda, en það var fyrst fyrir ári sem Íslendingum var boðið að þessu samningaborði eftir að hafa krafist þess allt frá 1999.
Fundurinn með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og einstakra aðildarríkja þess er haldinn að beiðni ESB. Gert er ráð fyrir að um 25 manna hópur komi hingað til lands og mun hann eiga fund með fulltrúum stjórnvalda, Hafrannsóknastofnunar og hagsmunaaðila. Flestir fulltrúa ESB koma frá aðildarríkjum, sem eiga hagsmuna að gæta varðandi makrílveiðarnar. Á fundinum munu Íslendingar væntanlega kynna niðurstöður rannsókna frá í sumar sem sýna mikla útbreiðslu makríls á Íslandsmiðum, fæðuöflun og fleira.
Tómas H. Heiðar er formaður samninganefndar Íslands í makrílviðræðunum og segir hann að líta megi á fundinn í næstu viku og aðra slíka fundi sem haldnir eru um makrílveiðar þessar vikurnar sem undirbúningsfundi fyrir strandríkjafundinn í október.
Forsenda árangurs
„Íslendingar hafa lýst yfir vilja til að ná samningum um makrílveiðar og tryggja þar með sjálfbærni veiðanna,“ segir Tómas H. Heiðar. „Við viljum leggja okkar af mörkum til þess að niðurstaða fáist og væntum þess að hinir aðilarnir geri það líka. Það er forsenda þess að árangur náist.“Íslendingar ákváðu einhliða 130 þúsund tonna makrílkvóta íslenskra skipa í ár og er langt komið með að veiða þann afla. Aðspurður um hvort tölur hafi verið nefndar sem viðunandi kvóti Íslendinga segir Tómas: „Aðilarnir fjórir, Ísland, Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið, hafa sett sér einhliða kvóta sem gefa til kynna hvaða væntingar þeir hafa hver um sig um hlutdeild í stofninum,“ segir Tómas. „Það er hins vegar alveg ljóst að menn verða að gefa eftir ef það á að nást samkomulag þar sem kvótarnir samanlagðir eru langt umfram það sem Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur ráðlagt. Það þurfa því allir að leggja sitt af mörkum svo samkomulag náist og er Ísland ekki undanskilið í þeim efnum.“
Tómas segir að langt hafi verið á milli hugmynda aðila um kvóta, en segist telja að vaxandi skilningur sé á því að samkomulag sé nauðsynlegt og í allra þágu. Eftir atlögu að makrílveiðum Íslendinga í Bretlandi í sumar hafi sjónarmiðum Íslands verið komið skýrt á framfæri og verið gert hærra undir höfði í erlendum fjölmiðlum upp á síðkastið.
Æ fleiri viðurkenni að það hafi verið mistök að neita Íslendingum um sæti við samningaborðið og halda þeim frá stjórnun makrílveiða. Taka þurfi tillit til hins breytta göngumynsturs makrílsins sem hafi gengið í íslensku lögsöguna í miklu magni á undanförnum árum og ná samkomulagi milli strandríkjanna fjögurra til að tryggja heildarstjórnun makrílveiðanna.
MINNA ORÐIÐ AF MAKRÍL