Fegurð „Lögin eru annars einkar innileg; næmt gítar- og banjóplokk er einkennandi og sérstök rödd Ólafar er oftast miðlæg.“
Fegurð „Lögin eru annars einkar innileg; næmt gítar- og banjóplokk er einkennandi og sérstök rödd Ólafar er oftast miðlæg.“ — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Plata Ólafar Arnalds frá árinu 2007, Við og við , vakti ekki mikla athygli fyrst er hún kom út en hægt og bítandi fór fólk hér heima og víðar að gera sér grein fyrir því að hér væri eitthvað alveg sérstakt á ferðinni.

Plata Ólafar Arnalds frá árinu 2007, Við og við , vakti ekki mikla athygli fyrst er hún kom út en hægt og bítandi fór fólk hér heima og víðar að gera sér grein fyrir því að hér væri eitthvað alveg sérstakt á ferðinni. Þessi perla í plötulíki varð síðan til þess að Ólöf hefur nú landað samningi á erlendri grundu og í gær, 13. september, kom önnur plata hennar, Innundir skinni, út, plata sem beðið hefur verið eftir með mikilli eftirvæntingu. Og öll þau álagspróf sem hægt er að demba á hana stenst hún með miklum glans.

Það er búið að vera mikið „suð“ í kringum Ólöfu eða „böss“ eins og það er kallað í bransanum og ekki að ósekju. Því að auk tónlistarinnar sjálfrar ber Ólöf með sér gnótt af óræðum, algerlega einstökum sjarma sem verður trauðla lýst með orðum. Hann liggur yfir og undir öllum smíðunum og ljær þeim þessa töfra sem hafa heillað mann og annan um velli víða.

Þessi plata er nokkuð fjölbreyttari en síðasta plata. Byrjað er á þjóðlagakenndri stemmu sem Ólöf syngur án undirleiks en áður en varir breytist hún í samsöng mikinn með strengjum, blæstri og herlegheitum miklum. Glæsileg byrjun. Lögin eru annars einkar innileg; næmt gítar- og banjóplokk er einkennandi og sérstök rödd Ólafar er oftast miðlæg. Áferð laganna er eins og hér séu á ferðinni þjóðlög frá einhverjum handanheiminum.

Áhugafólk um tónlist, sem gerð er af hinum einu og réttu forsendum; þ.e. af hjartahreinni þörf hins sanna listamanns, ætti að kanna þetta verk og það rækilega.

Að lokum geri ég orð Ólafar, sem er að finna í laginu „Vinkonur“, að mínum og það ættu fleiri að geta gert eftir að hafa baðað sig í þessari mögnuðu plötu: „Margslunginn ljómi þinn og kraftur, á svo ósköp vel við mig.“

Arnar Eggert Thoroddsen

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen