Jón Kr. Óskarsson
Jón Kr. Óskarsson
Eftir Jón Kr. Óskarsson: "Við verðum að finna betri baráttuaðferðir í okkar réttindamálum."

Þegar ný vetrardagskrá er í burðarliðnum hjá félögum eldri borgara á landinu er ef til vill rétt að hugsa ýmis mál upp á nýtt.

Eru baráttuaðferðir eldri borgara á landinu að skila einhverjum raunhæfum árangri í okkar baráttumálum? Mörgum finnst lítið miða áfram í réttindamálum okkar og reyndar hefur flest gengið okkur á mót undanfarin ár. Ekki bera eldri borgarar ábyrgð á bankahruninu, ekki er sjáanlegt annað en margir af þessum svokölluðu útrásarvíkingum, sem ýmsir broddborgarar hylltu í bak og fyrir fyrir nokkrum árum lifi flestir allgóðu broddborgaralífi enn þann dag í dag.

Ríkisstjórnin hefur alls ekki verið okkur hliðholl, í reynd hefur hún unnið gegn okkur eldri borgurum á ýmsum sviðum. Manni finnst oft á tíðum eins og stefna hennar sé að gera alla eldri borgara að bónbjargafólki. Réttindi hafa verið skert án þess að tala við okkur, samanber skerðingar Tryggingastofnunar ríkisins á umliðnum mánuðum. En hvað er til ráða? Ég hef velt þeirri hugmynd upp t.d. að Landssamband eldri borgara myndi sérstaka baráttunefnd eldri borgara. Ég hef komið því á framfæri LEB að við stefnum á allsherjar kröfugöngu t.d. frá Hlemmi í Reykjavík niður að Alþingi Íslendinga í september. Sú hugmynd hefur ekki fengið hljómgrunn hjá stjórn LEB eftir því sem ég hef frétt. Ef menn eru hræddir við nýjar hugmyndir þá er ekki von á góðu. Margir hafa skrifað greinar í blöð um okkar heitustu baráttumál en ekki hefur það sjáanlega skilað miklu, eða réttara sagt sáralitlu.

Félög eldri borgara á landinu eru yfirleitt með frábæra dagskrá til að stytta eldri borgurum stundirnar en það er alls ekki nóg. Við verðum að finna betri baráttuaðferðir í okkar réttindamálum. Við lifum ekki lengi á frábærum félagslegum samverustundum, við þurfum að geta lifað sómasamlegu lífi af því fjármagni er við höfum handa á milli.

Ég skora á LEB og félög eldri borgara um land allt að hugsa baráttuaðferðir upp á nýtt, við lifum ekki lengi á þeir síminnkandi tekjum er við höfum handa á milli.

Höfundur er formaður Félags eldri borgara í Hafnarfirði.

Höf.: Jón Kr. Óskarsson