Guðmundur Hilmarsson
gummih@mbl.is
Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu fer af stað í kvöld með átta leikjum þar sem lið á borð við Inter, Barcelona og Manchester United verða í eldlínunni en öll hafa þessi lið lyft Evrópubikarnum.
Ítalíumeistarar Inter frá Mílanó hefja titilvörnina í Hollandi þegar þeir etja kappi við hollensku meistarana Twente í A-riðlinum og á sama tíma eigast við Werder Bremen og Tottenham í Þýskalandi.
Markmiðið að vinna þrennuna aftur
„Okkar markmið er að vinna þrennuna aftur. Benítez hungrar í að ná árangri og við erum með frábært lið sem hefur burði til að leika sama leik og í fyrra,“ sagði Dejan Stankovic leikmaður Inter en ítalska liðið átti ótrúlega góðu gengi að fagna á síðustu leiktíð undir stjórn Jose Mourinho. Liðið vann ítölsku deildina, bikarkeppnina og vann svo Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madrid.
Enn andvaka yfir leiknum á móti Bayern
Manchester United fær Rangers í heimsókn á Old Trafford í leik sem er rætt um sem baráttuna um Bretland.„Við höfum aðeins unnið Evrópumeistaratitilinn þrisvar sinnum og það er ekki nóg fyrir félag eins og Manchester United. Við höfum verið óheppnir í nokkur skipti og leikurinn á móti Bayern München á síðasta tímabili situr enn sterkt í huga mínum. Ég á enn andvökunætur vegna þeirra leikja,“ sagði Ferguson en United var slegið út af Bayern í undanúrslitum á síðustu leiktíð.
Margir spá því að Barcelona endurheimti Evrópumeistaratitilinn en Börsungar taka á móti gríska liðinu Panathinaikos í kvöld. Börsungum svíður sárt tapið á móti nýliðum Hércules um nýliðna helgi og leikmenn liðsins hyggjast sýna stuðningsmönnum sínum úr hverju þeir eru gerðir.
„Við áttum einfaldlega dapran dag á móti Hércules og því fór sem fór. Nú ríður á að við komum okkur á rétta sporið og það gerum við með því að spila vel og vinna Panathinaikos,“ segir Danni Alves bakvörðurinn öflugi í liði Börsunga.
Sölvi mætir rússnesku meisturunum
Eini íslenski leikmaðurinn sem spilar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar er Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði íslenska landsliðsins. Lið hans, FC Köbenhavn tekur á móti rússnesku meisturunum í Rubin Kazan á Parken í kvöld. Sölvi sá um að tryggja FC Köbenhavn í riðlakeppnina en hann skoraði sigurmarkið gegn Rosenborg á Parken.Leikir kvöldsins í Meistaradeildinni:
A-riðill:
Twente – Inter Mílanó
Werder Bremen – Tottenham
B-riðill:
Lyon – Schalke
Benfica – Hapoel Tel Aviv
C-riðill:
Manchester United – Rangers
Bursaspor – Valencia
D-riðill:
Barcelona – Panathinaikos
FC Köbenhavn – Rubin Kazan
MÖRK, LEIKIR, SIGRAR . . .
Staðreyndir um Meistaradeildina
STÆRSTU SIGRARNIR:8:0 Liverpool – Besiktas (2007)
7:0 Arsenal – Slavia Prag (2007)
7:0 Juventus – Olympiakos (2003)
FLEST MÖRK Í LEIK:
8:3 Mónakó – Deportivo (2003)
7:2 Paris SG – Rosenborg (2000)
7:2 Lyon – Werder Bremen (2005)
MARKAHÆSTUR Á TÍMABILI:
12 - Ruud Van Nistelrooy (2002/03)
FLJÓTASTA MARKIÐ Í LEIK:
10,03 sek. Roy McKaay (Bayern M. – Real Madrid).
FLJÓTASTA ÞRENNAN:
9 mín. Mike Newell (Blackburn – Rosenborg)
FLESTIR LEIKIR:
130 – Raúl Gonzalez (Real Madrid)
120 – Roberto Carlos (Real Madrid, Fenerbache).
118 – Ryan Giggs (Man. Utd).
FLEST MÖRK:
66 – Raúl Gonzalez (Real Madrid)
56 – Ruud van Nistelrooy (Man Utd, Real Madrid)
50 – Thierry Henry (Mónakó, Arsenal, Barcelona).