Milljónamark Þessi skalli Sölva Geirs Ottesen tryggði FC Köbenhavn sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Lið hans mætir Rubin Kazan í kvöld.
Milljónamark Þessi skalli Sölva Geirs Ottesen tryggði FC Köbenhavn sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Lið hans mætir Rubin Kazan í kvöld. — Reuters
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu fer af stað í kvöld með átta leikjum þar sem lið á borð við Inter, Barcelona og Manchester United verða í eldlínunni en öll hafa þessi lið lyft Evrópubikarnum.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu fer af stað í kvöld með átta leikjum þar sem lið á borð við Inter, Barcelona og Manchester United verða í eldlínunni en öll hafa þessi lið lyft Evrópubikarnum.

Ítalíumeistarar Inter frá Mílanó hefja titilvörnina í Hollandi þegar þeir etja kappi við hollensku meistarana Twente í A-riðlinum og á sama tíma eigast við Werder Bremen og Tottenham í Þýskalandi.

Markmiðið að vinna þrennuna aftur

„Okkar markmið er að vinna þrennuna aftur. Benítez hungrar í að ná árangri og við erum með frábært lið sem hefur burði til að leika sama leik og í fyrra,“ sagði Dejan Stankovic leikmaður Inter en ítalska liðið átti ótrúlega góðu gengi að fagna á síðustu leiktíð undir stjórn Jose Mourinho. Liðið vann ítölsku deildina, bikarkeppnina og vann svo Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madrid.

Enn andvaka yfir leiknum á móti Bayern

Manchester United fær Rangers í heimsókn á Old Trafford í leik sem er rætt um sem baráttuna um Bretland.

„Við höfum aðeins unnið Evrópumeistaratitilinn þrisvar sinnum og það er ekki nóg fyrir félag eins og Manchester United. Við höfum verið óheppnir í nokkur skipti og leikurinn á móti Bayern München á síðasta tímabili situr enn sterkt í huga mínum. Ég á enn andvökunætur vegna þeirra leikja,“ sagði Ferguson en United var slegið út af Bayern í undanúrslitum á síðustu leiktíð.

Margir spá því að Barcelona endurheimti Evrópumeistaratitilinn en Börsungar taka á móti gríska liðinu Panathinaikos í kvöld. Börsungum svíður sárt tapið á móti nýliðum Hércules um nýliðna helgi og leikmenn liðsins hyggjast sýna stuðningsmönnum sínum úr hverju þeir eru gerðir.

„Við áttum einfaldlega dapran dag á móti Hércules og því fór sem fór. Nú ríður á að við komum okkur á rétta sporið og það gerum við með því að spila vel og vinna Panathinaikos,“ segir Danni Alves bakvörðurinn öflugi í liði Börsunga.

Sölvi mætir rússnesku meisturunum

Eini íslenski leikmaðurinn sem spilar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar er Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði íslenska landsliðsins. Lið hans, FC Köbenhavn tekur á móti rússnesku meisturunum í Rubin Kazan á Parken í kvöld. Sölvi sá um að tryggja FC Köbenhavn í riðlakeppnina en hann skoraði sigurmarkið gegn Rosenborg á Parken.

Leikir kvöldsins í Meistaradeildinni:

A-riðill:

Twente – Inter Mílanó

Werder Bremen – Tottenham

B-riðill:

Lyon – Schalke

Benfica – Hapoel Tel Aviv

C-riðill:

Manchester United – Rangers

Bursaspor – Valencia

D-riðill:

Barcelona – Panathinaikos

FC Köbenhavn – Rubin Kazan

MÖRK, LEIKIR, SIGRAR . . .

Staðreyndir um Meistaradeildina

STÆRSTU SIGRARNIR:

8:0 Liverpool – Besiktas (2007)

7:0 Arsenal – Slavia Prag (2007)

7:0 Juventus – Olympiakos (2003)

FLEST MÖRK Í LEIK:

8:3 Mónakó – Deportivo (2003)

7:2 Paris SG – Rosenborg (2000)

7:2 Lyon – Werder Bremen (2005)

MARKAHÆSTUR Á TÍMABILI:

12 - Ruud Van Nistelrooy (2002/03)

FLJÓTASTA MARKIÐ Í LEIK:

10,03 sek. Roy McKaay (Bayern M. – Real Madrid).

FLJÓTASTA ÞRENNAN:

9 mín. Mike Newell (Blackburn – Rosenborg)

FLESTIR LEIKIR:

130 – Raúl Gonzalez (Real Madrid)

120 – Roberto Carlos (Real Madrid, Fenerbache).

118 – Ryan Giggs (Man. Utd).

FLEST MÖRK:

66 – Raúl Gonzalez (Real Madrid)

56 – Ruud van Nistelrooy (Man Utd, Real Madrid)

50 – Thierry Henry (Mónakó, Arsenal, Barcelona).