Já já, það er fullt af fólki að hlusta, engar áhyggjur af því, Nóra mín. Enda er hér á ferðinni hörku frumraun hjá þessari ungu og efnilegu sveit, en í forgrunni eru systkinin Egill og Auður Viðarsbörn.

Já já, það er fullt af fólki að hlusta, engar áhyggjur af því, Nóra mín. Enda er hér á ferðinni hörku frumraun hjá þessari ungu og efnilegu sveit, en í forgrunni eru systkinin Egill og Auður Viðarsbörn. Tónlistinni væri best að lýsa sem einhvers konar nýbylgjurokki og áhrifin koma víða að, það er ekki verið að apa neitt eitt upp sérstaklega eins og fólk gerir stundum á þessum árum og er það vel. Það sem sker plötuna helst frá öðru því sem hefur verið að koma út í þessum geira er auðheyranleg ákefð og áhugi sveitarinnar sem er smitandi. Það er einhver ólga og kraftur sem flýtur upp og þetta lýsir sér best í frábærum samsöng systkinanna sem er fáránlega öruggur, miðað við að um fyrstu plötu er að ræða. Textar eru á íslensku, sem er plús í kladdann og maður sperrir ósjálfrátt upp eyrun þegar hið ylhýra er brúkað. Vissulega eru einhverjir hnökrar hér og hvar sem mætti hefla af en heilt yfir er þetta afar tilkomumikill frumburður sem gneistar af hugmyndaflugi, áræði og spilagleði.

Arnar Eggert Thoroddsen

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen