Töff Joaquin Phoenix í Feneyjum.
Töff Joaquin Phoenix í Feneyjum. — Reuters
Víst er að margir bíða í eftirvæntingu eftir viðtali Davids Letterman við leikarann, tónlistarmanninn og furðufuglinn Joaquin Phoenix, en í gær var tilkynnt um að hann yrði gestur í spjallþættinum 22. september nk.

Víst er að margir bíða í eftirvæntingu eftir viðtali Davids Letterman við leikarann, tónlistarmanninn og furðufuglinn Joaquin Phoenix, en í gær var tilkynnt um að hann yrði gestur í spjallþættinum 22. september nk. Síðasta viðtal Lettermans við Phoenix, var vægast sagt eftirminnilegt, en það var í febrúar á síðasta ári. Þá muldraði Phoenix eingöngu og var hinn skrítnasti en skýrði einnig frá því að hann væri hættur að leika í kvikmyndum.

Undarleg hegðun Phoenix hefur verið á milli tannanna á íbúum Hollywood og nýverið kom út heimildarmyndin (eða gerviheimildarmyndin) I'm Still Here). Í henni er umfjöllunarefnið Phoenix sjálfur og að því er segir í gagnrýni fréttavefjarsins Slate, sjálfstortíming hans, eiturlyfjanotkun og andlegir erfiðleikar. Í henni er Phoenix fylgt eftir, frá ákvörðun hans um að hætta kvikmyndaleik og tilraun hans til að hefja feril sem rappsöngvari. Myndin var forsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrir helgi og fær misjafna dóma.