Vextir Már Guðmundsson segir svigrúm til frekari vaxtalækkana hér.
Vextir Már Guðmundsson segir svigrúm til frekari vaxtalækkana hér. — Morgunblaðið/Ernir
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Raunvaxtastig á Íslandi er of hátt miðað við kreppuástandið, að mati Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Kom þetta fram í viðtali við Má fyrir Reuters-fréttastofuna sem tekið var í Basel í Sviss.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Raunvaxtastig á Íslandi er of hátt miðað við kreppuástandið, að mati Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Kom þetta fram í viðtali við Má fyrir Reuters-fréttastofuna sem tekið var í Basel í Sviss.

Raunvextir á Íslandi eru nú um 3,5 prósent, miðað við að stýrivextir séu nú ríflega sex prósent og verðbólgumarkmið upp á 2,5 prósent og telur Már að svigrúm sé fyrir frekari vaxtalækkanir í framtíðinni.

Már sagði jafnframt að til greina kæmi að lækka kröfur um 16 prósenta eiginfjárhlutfall íslenskra banka þegar aðstæður nálguðust það sem eðlilegt gæti talist. Hlutfallið yrði þó hærra en þau sjö prósent sem nýsamþykktar alþjóðlegar reglur gerðu ráð fyrir.

Hið háa eiginfjárhlutfall, sem íslensku bankarnir byggju við, hefði verið hugsað sem öryggisnet til að bregðast við ófyrirséðum áföllum. Dómur Hæstaréttar í gengislánamálinu hefði verið slíkt áfall. Sagði hann að hægt væri að skoða slökun á eiginfjárkröfunni þegar málin hefðu skýrst betur í nóvember. Þá yrðu fleiri dómar fallnir og eftirlitsaðilar búnir að ljúka við úttekt á íslenska bankakerfinu.