Bylur Forystusauðurinn Bylur ásamt eiganda sínum, Agnari Kristjánssyni í Norðurhlíð.
Bylur Forystusauðurinn Bylur ásamt eiganda sínum, Agnari Kristjánssyni í Norðurhlíð. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atli Vigfússon Þingeyjarsveit | „Það er gaman að forystufénu og nauðsynlegt að hafa það með,“ segir Agnar Kristjánsson, bóndi í Norðurhlíð í Aðaldal, en hann átti fallega sauði á Hraunsrétt sem m.a.

Atli Vigfússon

Þingeyjarsveit | „Það er gaman að forystufénu og nauðsynlegt að hafa það með,“ segir Agnar Kristjánsson, bóndi í Norðurhlíð í Aðaldal, en hann átti fallega sauði á Hraunsrétt sem m.a. leiddu fjárhópinn til réttar alla leið frá Þeistareykjum en það er löng og ströng ganga.

„Forystuféð þarf að njóta frelsisins í afréttinni og það er ekki í eðli þess að vera lokað inni í túnum eða hólfum,“ segir Agnar en hann fór sérstaka ferð á móti safninu til þess að sjá hvaða forystufé það væri sem leiddi safnið.

Þarna eru vitrar skepnur á ferð og einn sauður Agnars sem nálgast fermingaraldurinn fer alltaf fremstur. Hann er skynsamur og þægur og veit hvað stendur til.

Skraut í hjörðinni

Að venju var margt fólk í Hraunsrétt og glatt á hjalla enda var veðrið ákjósanlegt, sólskin og logn. Mjög greiðlega gekk að draga féð sem var vænt og vel á sig komið og víða mátti sjá mjög fallegar kindur.

Áhugi á forystufé er heldur vaxandi í Aðaldal og fleiri sveitum og segist Agnar ekki tíma að farga fallegum hreinræktuðum forystulömbum og þannig sé nokkur hætta á að forystukindunum fjölgi heldur mikið. Eina ráðið sé að hafa hluta af því hálfblóðs til þess að eftirsjáin sé ekki eins mikil. Ekki sé hægt að búa eingöngu með forystufé þar sem það sé ekki eins kjötmikið en þetta eru vitrar og athyglisverðar skepnur sem skreyta hópinn, vita á sig veður og drífa féð áfram í smalamennskum.

Merkilegir sauðir
» Ásgeir Jónsson frá Gottorp safnaði sögum af forystufé í bók sem gefin var út árið 1953.
» Í formála beindi Ásgeir orðum sínum til fjárbænda landsins og hvatti þá til að eignast gott forystufé þar sem það veitti mikla lífsánægju og öryggi við geymslu og hirðingu hjarðarinnar.
» Til er landsþekkt forystufé sem margar sögur hafa farið af. Má þar nefna mógolsótta forystusauðinn Feng sem Björn bóndi á Gili í Svartárdal eignaðist árið 1932.