Kúl Hjólabrettatískan er flott.
Kúl Hjólabrettatískan er flott.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Setningarhátíð Hjólabrettafélags Akureyrar fór fram í Verksmiðjunni á Hjalteyri á laugardaginn. „Þetta gekk eins og í sögu og það var margt um manninn bæði laugardag og sunnudag,“ segir Elvar Örn Egilsson formaður Hjólabrettafélags...

Setningarhátíð Hjólabrettafélags Akureyrar fór fram í Verksmiðjunni á Hjalteyri á laugardaginn.

„Þetta gekk eins og í sögu og það var margt um manninn bæði laugardag og sunnudag,“ segir Elvar Örn Egilsson formaður Hjólabrettafélags Akureyrar. Búið var að byggja upp hjólabrettaaðstöðu í verksmiðjunni og voru margir sem nýttu sér hana um helgina til að renna sér, einnig voru sýndar brettaljósmyndir og myndbönd á staðnum.

Að sögn Elvars er aðalmarkmið hjólabrettafélagsins að kveikja aðeins í bæjaryfirvöldum og sveitarstjórnum og sýna hvað þessi íþrótt er stór á Akureyri og í nágrenni með von um að fá innanhúsaðstöðu.

„Við buðum bæjarstjórunum og fleirum á setningarhátíðina til að ýta á að fá innanhúsaðstöðu. Það er mjög stór hópur sem stundar hjólabrettaíþróttina hér fyrir norðan, það komu strákar að sunnan um helgina og það kom þeim á óvart hvað það eru margir sem stunda hjólabretti hér, miklu fleiri en fyrir sunnan ef miðað er við íbúafjölda. Núna erum við bara með útiaðstöðu sem við fengum fyrir nokkrum árum. Við höfum enga aðstöðu á veturna svo við getum bara stundað brettin fjóra mánuði á ári sem er alls ekki nógu gott,“ segir Elvar.

ingveldur@mbl.is