Sigurður Ólafsson fæddist í Hafnarfirði 20. maí 1944. Hann lést á heimili sínu 4. september 2010.
Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Frímannsson vélvirki, f. 13. maí 1921, d. 5. apríl 1987, og Kristín Sigurðardóttir, f. 10. október 1921, d. 6. febrúar 1986. Systkini Sigurðar eru, Birgir, f. 1942, maki Stella Olsen, f. 1946, d. 2010, Guðrún, f. 1951, maki Kristján Ingvarsson, f. 1947, Einar, f. 1954, maki Ingibjörg Magnúsdóttir, f. 1956.
Hinn 26. desember 1965 kvæntist Sigurður eftirlifandi eiginkonu sinni Ingunni Elísabetu Viktorsdóttur, f. 13. nóvember 1944. Foreldrar hennar voru Viktor Þorvaldsson, f. 1. nóvember 1911, d. 20. október 1997, og Guðrún Ingvarsdóttir, f. 19. maí 1922, d. 1. september 2010,
Börn Sigurðar og Ingunnar eru: 1) Viktor Rúnar, f. 1965, sambýliskona Ásthildur Elín Guðmundsdóttir, f. 1965. Börn Viktors Rúnars og Ernu Lúðvíksdóttur eru Lúðvík og Ingunn Elísabet. 2) Kristín, f. 1967, maki Sæmundur Bjarnason, f. 1957, sonur þeirra er Sæmundur Bjarni. Synir Kristínar og Sigurjóns Grétarssonar eru Sigurður Grétar og Viktor Ingi. 3) Guðrún Lísa f. 1977, maki Viðar Utley, f. 1966. Börn þeirra eru Viktoría Valdís, Viðar Elí og Veigar Orri.
Sigurður bjó alla sína ævi í Hafnarfirði. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði og starfaði við þá iðn hjá Skipasmíðastöðinni Dröfn hf. allt þar til hann gerðist slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði Hafnarfjarðar þar sem hann starfaði allt þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2006.
Sigurður gerðist félagi í Björgunarsveit Fiskakletts í Hafnarfirði fljótlega eftir stofnun hennar árið 1966 og starfaði í henni allt til dánardags. Ferðalög og útivera voru áhugamál Sigurðar en hin síðari ár naut hann sín í sumarbústað fjölskyldunnar við Laugarvatn sem hann byggði ásamt Kristínu, dóttur sinni.
Útför Sigurðar verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, þriðjudaginn 14. september 2010, og hefst athöfnin kl. 13.
Hátt í 60 ára saga og vinátta að baki. Saga sem hófst á Selvogsgötunni þar sem margt var brallað í skjóli Hamarsins.
Við vorum samstiga út í lífið og urðum vinnufélagar strax um 12 ára aldur þegar við unnum báðir sem sendisveinar í Kaupfélagi Hafnarfjarðar. Fórum báðir í Iðnskólann og lærðum saman trésmíði í Dröfn. Hófum búskap í suðurbænum og vorum saman í Slökkviliði Hafnarfjarðar í 27 ár og síðar í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Í 16 ár vorum við tveir ásamt Jóni Pálmasyni varðstjóra á d-vaktinni. Þegar fjölgað var á vaktinni 1987 og þeir Rabbi og Steini Karls bættust í hópinn tók Siggi að sér hlutverk kennarans og kenndi þeim m.a. að keyra, skipta úr öðrum gír yfir í þann þriðja til að láta vélina vinna.
Á löngum næturvöktum var margt spjallað, um ferðalög, stöðuna í boltanum, börnin okkar, húsbyggingarnar og afkomuna. Brids var spilað af krafti og fyrir utan stöðina héldum við vel hópinn. Hittumst reglulega og gerðum eitt og annað okkur til skemmtunar.
Upp í hugann kemur minningin um þrettándahátíðirnar þar sem vaktin kom saman og þá var sko skotið upp flugeldum og þar var Siggi klárlega á heimavelli eins og í svo mörgu öðru sem hann tók sér fyrir hendur.
Siggi var einstaklega handlaginn maður, listamaður með tré og laginn í samskiptum við fólk. Hann var æðrulaus og traustur vinur sem reyndist mér og fjölskyldunni vel á erfiðum tímum.
Ég segi stundum að hann hafi kennt mér að hugsa áður en ég framkvæmdi því hann var ávallt að leiðbeina okkur sem vorum í kringum hann. Í sumar heimsótti ég hann á Landspítalann, þá var ég að leggja upp í ferð yfir Sprengisand. Sigga var umhugað um að ferðin gengi vel og gaf mér í veganesti leiðbeiningar um það hvernig best væri að fara yfir óbrúaðar jökulár og að sjálfsögðu að passa mig á að fara ekki út af slóðanum. Þannig var Siggi, ávallt reiðubúinn að aðstoða og leiðbeina.
Það er með þökk og virðingu sem ég kveð góðan vin og félaga.
Ingunni, Viktori, Kristínu, Guðrúnu Lísu og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.
Þorsteinn Hálfdanarson.
Sigurður lærði umsjón og viðhald reykköfunartækja og sá um þau mál til fjölda ára hjá Slökkviliði Hafnarfjarðar. Hann tók fljótlega við umsjón reykköfunartækja hins nýja slökkviliðs og sinnti henni þar til hann lét af störfum vegna veikinda þeirra, sem hann glímdi við í mörg ár og hafa nú lagt hann að velli.
Í samskiptum við félaga sína í slökkviliðinu var Sigurður ljúfmenni, hafði gaman af spjalli og gleðskap og hafði skoðanir á flestu. Hann var húsasmiður og einkar laghentur og útsjónarsamur við hverskyns viðhald og viðgerðir og fórst því starfið vel úr hendi. Segja má að líf reykkafara liggi í höndum þeirra sem sjá um viðhald og eftirlit með reykköfunartækjunum. Ég gerði mér strax grein fyrir því að Sigurði væri fullkomlega treystandi fyrir lífi og velferð félaga sinna þar sem hann sinnti starfi sínu af sérstakri nákvæmni og vandvirkni og skilaði 110 prósent vinnu. Slíkt vinnuframlag er ómetanlegt.
Það er ekki óalgengt að skyldmenni starfi saman í slökkviliðum. Starfandi slökkviliðsmenn eru hetjur í augum yngri systkina, sona, dætra og annarra ættmenna sem vilja feta í fótspor bræðra sinna eða feðra. Við fengum ekki einungis Sigurð í hópinn við sameininguna, heldur einnig son hans, Viktor, mikinn öðlingsdreng.
Fyrir hönd samstarfsfélaganna í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins votta ég Ingunni, Viktori og fjölskyldunni allri samúð mína.
Jón Viðar Matthíasson.