16. september 1936 strandaði rannsóknarskipið Pourquoi-Pas? á skerinu Hnokka í Borgarfirði og með því fórst franski heimskautafarinn og leiðangursstjórinn Jean Baptiste Charcot ásamt allri áhöfn utan einum. Til minningar um þennan atburð hafa Alliance Française í Reykjavik og Háskóli Íslands undanfarin ár boðið upp á erindi þann 16. september þar sem sögulegt og vísindalegt gildi þessara leiðangra fyrr og nú er reifað.
Í ár flytur dótturdóttir Charcots, Anne-Marie Charcot, erindi um daglegt líf í heimskautaleiðöngrum og fjallar um ferð Pourquoi-Pas? til Suðurskautsins 1908-1910. Í erindinu, sem flutt verður í Alliance Française á Tryggvagötu 8 kl. 20:00 fimmtudagskvöld, sýnir Anne-Marie Charcot áður óbirtar myndir úr eigu fjölskyldunnar.