Örn Gunnlaugsson
Örn Gunnlaugsson
Eftir Örn Gunnlaugsson: "Fjöldi fólks hefur nú þann starfa að djöflast á fórnarlömbum fjármögnunarfyrirtækja sem stunduðu hér ólögmæta lánastarfsemi í hartnær áratug eins og Hæstiréttur staðfesti í sumar."

Væntanlega er það fátítt í hinum vestræna heimi að leigumorðingjar séu sýknaðir á grundvelli þess að þeir frömdu glæpi sína í nafni umbjóðenda sinna. Fáum sögum fer einnig af því að leigumorðingjar reyni almennt að beita slíkum rökum fyrir sig í vörn sinni. Sennilega treysta þeir ekki á að tillit verði tekið til slíkra kringumstæðna. Enda myndi slíkt sennilega flokkast undir heimsku á heimsmælikvarða.

Á Íslandi horfa þessir hlutir við með allt öðrum hætti enda erum við Íslendingar allt öðru vísi en allir aðrir – a.m.k. vilja mörg okkar reyna að trúa því. Fjöldi fólks hefur nú þann starfa að djöflast á fórnarlömbum fjármögnunarfyrirtækja sem stunduðu hér ólögmæta lánastarfsemi í hartnær áratug eins og Hæstiréttur staðfesti í sumar. Fjármálafyrirtækin fóru síðan af stað með mál fyrir dómstóla til að reyna að fá hnekkt fyllilega lögmætu ákvæði varðandi þá vexti sem samið var um. Og á meðan láta sum þeirra a.m.k. engan bilbug á sér finna gagnvart hörku í garð fórnarlamba sinna. En bíðum nú við, fyrirtæki þessi eru lítið annað en fólkið sem stjórnar þeim og starfar þar. Eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði um gengistryggingu fyrirfram staðlaðra samninga þessara fjármögnunarfyrirtækja stæðust ekki lög hefur ekkert heyrst frá ákæruvaldinu. Er kannski búið að leggja það niður? Hverjir voru það sem bjuggu til þessi ólögmætu ákvæði og eiga að svara fyrir þau?

Í stað þess að hlíta niðurstöðu Hæstaréttar og skammast sín halda stjórnendur og starfsmenn þessara fyrirtækja áfram að þjarma að fórnarlömbum sínum og beita auk þess aðkeyptum leigukrimmum af stofum úti í bæ. Þetta vesalings fólk virðist almennt ekki gera sér grein fyrir því að það getur tæplega skotið sér undan ábyrgð og skaðabótaskyldu í skjóli þess að það framkvæmdi einhvern ólöglegan verknað í nafni vinnuveitenda eða umbjóðenda sinna.

Ég stend á tímamótum vegna aðgerða leigukrimma sem annaðhvort í nafni vinnuveitenda sinna eða umbjóðenda ganga fram á grundvelli ólögmætra samninga. Það væri kannski rétt að þeir aðilar sem hafa með höndum umrædd skítverk staldri örlítið við og hugsi mál sín út frá aðstæðum leigumorðingjans. Dettur þessu fólki í hug að þegar það hefur hirt allt af fórnarlömbum sínum eða umbjóðenda/vinnuveitenda sinna muni þessi fórnarlömb sækja rétt sinn til gjaldþrota vinnuveitenda eða umbjóðenda þessa fólks? Það er alveg sama hvaða rök verða notuð í þessum málum – á endanum eru það gerendurnir sem eru ábyrgir persónulega fyrir gjörðum sínum og þeir munu væntanlega uppskera í samræmi við það.

Höfundur er fyrrverandi atvinnurekandi og núverandi öreigi.

Höf.: Örn Gunnlaugsson