Björn S. Stefánsson
Björn S. Stefánsson
Frá Birni S. Stefánssyni: "Við höfum kunningjarnir reynt að skilja þessi stuttu örnefni Bær, Land og Ey eða Eyjar. Hvernig má jörð og bær nefnast Bær, þegar bæir eru um allt? Jarðir, sem heita Bær, reynast gjarna vera næst höfuðbóli."

Við höfum kunningjarnir reynt að skilja þessi stuttu örnefni Bær, Land og Ey eða Eyjar. Hvernig má jörð og bær nefnast Bær, þegar bæir eru um allt? Jarðir, sem heita Bær, reynast gjarna vera næst höfuðbóli. Nokkur dæmi: Í Trékyllisvík er Árnes, lengi prestssetur og með hlunnindi. Næsti bær er Bær, án hlunninda. Í Súgandafirði er Staður, lengi prestssetur. Þar, í Staðardal, er næsti bær Bær. Í Borgarfirði er Varmalækur, lengi höfuðból (þar bjó um tíma Hallgerður langbrók) með land að Grímsá, mikilli laxveiðiá. Bæjarleið frá er Bær, kirkjustaður, en á ekki land að matarkistunni Grímsá.

Okkur sýnist, að svo kunni að hafa verið, eftir að höfuðbólið, landnámsjörðin, hafði borið fram fleira fólk en hentaði, að þar ætti heima, að reistur hafi verið bær á næstu grösum og hafinn þar sjálfstæður búskapur. Í tali fólks á höfuðbólinu var þá talað um fólkið í bæ (menn spöruðu greininn, sögðu ekki í bænum). Nú má fara um landið og athuga, hvort þetta geti staðist. Ég bendi á Bæ í Hrútafirði (Bæjarhreppi), Bæ á Selströnd, Bæ á Höfðaströnd, Bæ í Lóni (Bæjarhreppi), Bæ í Reykhólasveit og Bæ í Kjós.

Málvinur minn í þessum vangaveltum sagði mér, að fyrir sér hefði lengi verið skýrt, að ey og eylendi táknaði stundum votlendi. Landeyjar í Rangárvallasýslu voru svo votlendar, áður en framræsla hófst með vélum, að menn komust illa á milli bæja að sumarlagi; það sagði mér norðlenskur maður, sem var búnaðarráðunautur fyrir stríð og þurfti að koma þar á bæi. Þá verður það svo skilið, að Eyjafjöll séu kennd við þessar eyjar, en ekki Vestmannaeyjar. Heitið Landeyjar greindi svæðið frá eyjum úti fyrir landi, Vestmannaeyjum.

Ýmsar jarðir heita Ey eða Eyjar, án þess að tengjast ey af því tagi, sem menn sjá úti á firði eða á vatni. Eyjar eru jörð í Kjós, en enga ey að sjá þar; í Breiðdal er jörðin Eyjar, nærri prestssetrinu Eydölum. Allfjarri þessum jörðum, fyrir utan bæinn Ós, utarlega á Breiðdalsvík að austanverðu, eru reyndar smáeyjar. Í Laugardal eru jarðirnar Útey, Miðey og Austurey, en á vötnunum þar, Laugarvatni og Apavatni, sem þær eiga land að, er engin ey. Í Landbroti er jörðin Ey (Efri-Ey), og í sjálfum Landeyjum er jörðin Ey.

Þar sem land er eiginlega hvar sem er, er ekki gott að vita, hvað heitið Land merkir. Fyrirferðarmest í því efni er sveitarnafnið Land, milli Ytri-Rangár og Þjórsár. Sveitin er fyrir ofan Holt (áður Þjórsárholt). Holt merkti að fornu skógi vaxið land (Hjarðarholt, Brautarholt). Land er þá skóglaust land (þegar nafnið varð til). Ofarlega á Landi er Mörk, þ.e.a.s. skógur, jörð; merkingarlaust nafn, ef skógur hefði verið um allt. Í Vestmannaeyjum eru Lönd (var prestssetur, Landakirkja), á Miðnesi eru Lönd, jörð, í Stöðvarfirði er jörðin Lönd, í Axarfirði er Land; varð tvær jarðir, Austara-Land og Vestara-Land. Í Öxnadal er Land, nú þrjár jarðir, Efstaland, Miðland og Neðstaland.

BJÖRN S. STEFÁNSSON,

dr. scient.

Frá Birni S. Stefánssyni

Höf.: Birni S. Stefánssyni