Trans Ólafía Hrönn Jónsdóttir fer með annað aðalhlutverkið í myndinni ásamt Kjartani Guðjónssyni.
Trans Ólafía Hrönn Jónsdóttir fer með annað aðalhlutverkið í myndinni ásamt Kjartani Guðjónssyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Gamanmyndin Sumarlandið , eftir leikstjórann Grím Hákonarson, verður frumsýnd á föstudaginn en hún er fyrsta kvikmynd Gríms í fullri lengd.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Gamanmyndin Sumarlandið , eftir leikstjórann Grím Hákonarson, verður frumsýnd á föstudaginn en hún er fyrsta kvikmynd Gríms í fullri lengd. Grímur hefur átt velgengni að fagna í stuttmyndagerð, stuttmynd hans Bræðrabylta var m.a. valin ein af þremur bestu stuttmyndunum á norrænu kvikmyndahátíðinni Nordisk Panorama árið 2007. Grímur segir það „gang lífsins“ að færa sig úr stuttmyndum yfir í kvikmyndir í fullri lengd. „Ég myndi segja bara rökrétt framhald, þetta er kannski markmið hjá flestum sem fara út í þetta, að gera kvikmynd í fullri lengd,“ segir Grímur.

Handritið að Sumarlandinu samdi Grímur með Ólafi Agli Egilssyni og er umfjöllunarefnið yfirskilvitlegt, ef svo mætti segja. „Þetta fjallar um fjölskyldu sem rekur sálarrannsóknarfélag og er með álfa- og draugatengda ferðaþjónustu. Mamman er miðill, skyggn, sér drauga og álfa og pabbinn sér um reksturinn og dóttirin vinnur á símanum. Þetta er fjölskyldufyrirtæki. Pabbinn trúir ekki á álfa en hefur mikinn áhuga á því að markaðssetja þjóðtrúna og græða pening. Einn daginn fá þau fá tilboð í álfastein sem er í garðinum, gamalgróinn stein sem hefur verið þarna frá því þau fluttu inn í húsið og móðirin heldur mikið uppá. Þá kemur upp ágreiningur milli þeirra, hvort þau eigi að taka álfatrúna og gildi hennar fram yfir eða græða smá pening og koma sér út úr skuldunum,“ segir Grímur um söguþráðinn.

Hjónin leika Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Kjartan Guðjónsson en dóttur þeirra leikur Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og son þeirra Nökkvi Helgason. Þá leikur þýski listamaðurinn Wolfgang Müller þýskan mann sem áhuga hefur á því að kaupa álfasteininn. Müller er mikill áhugamaður um álfa og hefur samið erótískar álfasögur og gefið út í Þýskalandi.

Gengur aftur til að birta grein í Morgunblaðinu

– Hver er kveikjan að þessari sögu?

„Ja, kveikjan að þessari sögu kemur úr mörgum áttum. Að einhverju leyti kynni mín af þessum sálarrannsóknarheimi á Íslandi, ég hef alltaf haft áhuga á þessu þó ég hafi aldrei kafað ofan í þetta. Ég gerði stuttmynd fyrir nokkrum árum sem fjallar um gamlan mann sem gengur aftur til að birta grein í Morgunblaðinu, hún hét Síðustu orð Hreggviðs ,“ segir Grímur. Þá mynd hafi hann byggt á sögum sem hann hafi heyrt. „Ég reyni að blanda saman yfirnáttúrulegum hlutum og íslenskum hversdagsleika. Fólkið í Sumarlandinu rekur sálarrannsóknarfélag heima hjá sér, það talar við drauga á meðan það borðar ristað brauð og flettir Mogganum. Íslendingar trúa mikið á álfa og drauga en eru einnig á kafi í efnishyggjunni og ég tek þessar andstæður fyrir í Sumarlandinu.

Mér finnst þetta hljóma hálf tækifærissinnað.“

– Þetta er eitthvað sem margir hlæja að en er þó fúlasta alvara fyrir öðrum?

„Já og þetta er mjög þjóðlegt, ég er dálítið í þessum þjóðlegu pælingum, með glímuhommana t.d. ( Bræðrabylta ). Svo eru það Six Feet Under þættirnir, það er dálítið svipuð pæling, fjölskylda sem rekur útfararstofu í þeim og þarna er fjölskylda sem rekur sálarrannsóknarfélag og býr í sama húsi.“

Að selja auðlindir úr landi

– Í ljósi umfjöllunarefnisins, urðu nokkur óhöpp við tökur?

„Nei, það er spurt að þessu í hvert skipti en við urðum ekki vör við neitt. Ekki nema að stundum þegar við vorum að klippa myndina, eitthvert tæknibögg, tölvan fór að bila.“

– Draugur í vélinni?

„Já. En ég hef spjallað við miðla og þeir eru allir voða jákvæðir gagnvart myndinni, segja að hinir framliðnu séu alveg sáttir við þetta,“ segir Grímur kíminn.

– Trúir þú sjálfur á þetta?

„Já, ég geri það nú alveg að einhverju marki. Ég kýs nú kannski frekar að líta á svona álfatrú sem hluta af íslenskri þjóðarvitund og menningu. Ég nálgast þetta frekar þannig.“

Grímur segir að lokum að sjá megi ákveðna myndlíkingu í hugmyndinni um að selja álfastein úr landi, þ.e. fyrir þann gjörning að selja útlendingum auðlindir landsins.

FERILL GRÍMS HÁKONARSONAR

Úr klósettinu í hulduheima

Kópavogsbúinn Grímur Hákonarson vakti fyrst verulega athygli á kvikmyndasviðinu fyrir stuttmyndina Klósettmenning sem hann gerði ásamt félaga sínum Rúnari Rúnarssyni ( Síðasti bærinn í dalnum , Smáfuglar t.d.). Grímur gerði síðan Varði Goes Europe árið 2002 þar sem fylgst var með trúbadúrnum Varða og ævintýrum hans í Evrópu. Stuttmyndirnar Slavek the Shit (2005) og Bræðrabylta (2007) vöktu svo á honum alþjóðlega athygli en þess má geta að Bræðrabylta vann til 25 verðlauna á kvikmyndahátíðum út um allan heim.