Kennsla Í miðjum undirbúningi opnunar var dansinn engu að síður stundaður, Eva Karen í málningargallanum leiðbeinir ungu danspari.
Kennsla Í miðjum undirbúningi opnunar var dansinn engu að síður stundaður, Eva Karen í málningargallanum leiðbeinir ungu danspari. — Morgunblaðið/Guðrún Vala
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgfirðingar eru nú í óða önn að pússa dansskóna og taka fram samkvæmisfatnaðinn því svo skemmtilega vill til að nú hefur verið opnað dansstúdíó í Borgarnesi, nánar tiltekið í kjallara Mennta- og menningarhússins.

Borgfirðingar eru nú í óða önn að pússa dansskóna og taka fram samkvæmisfatnaðinn því svo skemmtilega vill til að nú hefur verið opnað dansstúdíó í Borgarnesi, nánar tiltekið í kjallara Mennta- og menningarhússins. Það er Eva Karen Þórðardóttir danskennari sem á heiðurinn af framtakinu en hún hefur undanfarin ár kennt dans í uppsveitum Borgarfjarðar og menntaskólanum í Borgarnesi.

Guðrún Vala Elísdóttir

vala@simenntun.is

Helsta ástæðan fyrir því að opna dansstúdíó var að fá góða aðstöðu fyrir dansara til að æfa sína íþrótt“, segir Eva Karen. „Einnig vildi ég að þeir fengju tækifæri til að æfa eins mikið og þeir vilja og þurfa til að ná sínum markmiðum.“

Aðstaðan í Mennta- og menningarhúsinu hentar vel, því þar eru tveir salir, sá stærri er 218 m² og sá minni er um 100 m² þannig að fleira en danskennsla verður á boðstólum „Já það verður fjölmargt í boði bæði í dansi og hreyfingu og vonandi geta sem flestir fundið eitthvað við sitt hæfi. Í minni salnum munum við bjóða upp á morgunleikfimi, hádegisleikfimi, orku- og slökunarleikfimi, kraftjóga, jóga fyrir konur, slökunarjóga og mömmumorgna svo eitthvað sé nefnt. Í stóra salnum verður boðið upp á samkvæmisdans fyrir allan aldur og alla getuflokka, en jafnframt kúrekadans, freestyle, magadans, „Body Jam“, og svo hreyfilist fyrir leikskólabörnin frá þriggja ára aldri“. Eva Karen segist finna mikinn meðbyr og segir að vefsíða dansskólans http://evakaren.is/ hafi fengið gríðalega margar heimsóknir, skráningar líti mjög vel út og allt hafi farið vel af stað.

Dansinn í eðli barna

Eva Karen er innfæddur Borgfirðingur og býr á Kleppjárnsreykjum. Eiginmaður hennar er Oddur Björn Jóhannsson og eiga þau tvo syni. Hún segir að það hafi aldeilis komið sér vel að vera gift smiði við undirbúning á opnun dansskólans. „Maðurinn minn er náttúrulega búinn að gera kraftaverk þarna, leggja parket og mála, en fjölskylda mín, tengafjölskylda , foreldrar í dansinum og krakkarnir sjálfir hafa verið mjög hjálplegir og án þessa frábæra fólks hefði þetta ekki tekist“.

Dansinn hefur alltaf verið áhugamál Evu Karenar og hélt hún ófáar danssýningarnar fyrir foreldra sína heima í stofu þegar hún var barn. „Ég man bara ekki eftir mér öðruvísi, ég held reyndar að það sé í eðli barna að dansa, þau dilla sér við tónlist og svo er bara spurning hvort maður heldur áhuganum við“. Hún segist hafa kynnst dansnámi í grunnskóla, fundist það mjög gaman og þegar hún var á þriðja ári í menntaskóla fór hún að æfa dans í Reykjavík með herra í dansskóla Jóns Péturs og Köru. „Allar götur síðan hef ég verið að læra dans, hvort sem ég hef verið að æfa sjálf eða verið að afla mér þekkingar. Ég náði mér svo í danskennararéttindi í sumar. Auður Haraldsdóttir Danskennari sem heldur utanum Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar þjálfaði mig undir danskennaraprófið og er ég henni þakklát fyrir það. Dansskólinn minn er jafnframt í samstarfi við Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar en það er með flest af bestu keppnispörum landsins“.

Fjölbreytt menntun

Auk þess að vera danskennari er Eva Karen menntaður grunnskólakennari, þolfimikennari og förðunarfræðingur. „Ég er búin að dunda mér ýmislegt í skóla um æfina og held að lífið hafi ýtt mér í áttina að danskennslunni. Ég lauk líka einu og hálfu ári í hárgreiðslunámi og þetta er allt alveg ljómandi blanda ef mann langar að verða danskennari“.

Aðdragandinn að danskennaranáminu var sá að fyrir átta árum var Eva Karen að kenna í Grunnskólanum á Kleppjárnsreykjum, og var þá Ásrún Kristjánsdóttir danskennari að kenna þar skóladans. Ásrúnu fannst hópurinn efnilegur og bauð þeim sem vildu og höfðu tök á að fara á Íslandsmeistaramót í samkvæmisdönsum. Eva Karen var henni til aðstoðar ásamt öðrum kennara að búa krakkana undir mót. „Árið eftir ákvað ég að fylgja þessu eftir og bjóða upp á danskennslu. Þá æfðum við einu sinni í viku einn hópur og það var mjög skemmtilegt. Með tímanum vatt þetta svo heldur betur upp á sig og í fyrravetur æfðu um 200 manns dans.“ Dans var kenndur alla skólastjóratíð Guðlaugs Óskarssonar á Kleppjárnsreykjum og var alltaf hluti af skólalífinu og þótti sjálfsagt að stunda hann eins og annað. Dans er ekki lengur kenndur í skólanum en ástæðan er líklega sparnaður telur Eva Karen.

Þorrablótin líkjast danskeppnum

Þegar menntaskólinn fór af stað í Borgarnesi var Ársæll Guðmundsson skólameistari staðráðinn í því að dans skyldi gerður að skyldufagi í skólanum og það varð úr. „ Mér finnst krakkarnir taka vel í dansinn, og núna er orðið frekar hallærislegt að vera ekki í dansi. Krakkarnir nota þessa kunnáttu óspart á böllum sveitarinnar og þorrablótin eru farin að minna á danskeppnir erlendis.“

Eva Karen segir að fyrsta árið sem dansinn var kenndur hafi nokkrir krakkar verið neikvæðir og ragir við tímana. Dæmi voru um nemendur sem börðust gegn dansinum en eftir að þeir byrjuðu kom í ljós að þetta var hvorki erfitt né leiðinlegt. Neikvæðir nemendur urðu efnilegir dansarar og hafa m.a. keppt í London. Í dag eru mjög margir krakkar úr menntaskólanum að æfa samkvæmisdansa af fullum krafti og keppa í þessari íþrótt.

Ótrúlegur árangur

Borgfirðingar eru miklir dansarar, segir Eva Karen og því ekki erfitt að virkja áhugann. „Áhuginn jókst jafnt og þétt, og um leið dansinn hér í sveitinni. Nemendur mínir hafa náð ótrúlega góðum árangri, en þeir hafa margir hverjir komið heim af mótum með Íslandsmeistaratitla og einnig verðlaun frá útlöndum. Þessir krakkar hafa ekki haft tök á því fyrr en nú að æfa mörgum sinnum í viku, en samt hefur þeim gengið mjög vel. Þeir hafa lært að vinna vel og eru virkilega duglegir að æfa sig þó að kennarinn standi ekki yfir þeim. Það besta við dansskólann er að nú hafa krakkarnir aðgang að sal til að æfa sig, en áður tróðu þeir sér allsstaðar sem hægt var til að æfa sig. Borgfirðingar hafa tekið þessu uppátæki mínu hreint frábærlega. Ég vona bara að allir drífi sig nú til okkar og skelli sér á námskeið til að hreyfa sig“.