Dýrslegur „Burðarhlutverkið Frank N Furter leikur Magnús Jónsson og, í stuttu máli, gerir það asskoti vel,“ segir gagnrýnandi m.a.
Dýrslegur „Burðarhlutverkið Frank N Furter leikur Magnús Jónsson og, í stuttu máli, gerir það asskoti vel,“ segir gagnrýnandi m.a. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höfundur: Richard O´Brien´s. Þýðing: Veturliði Guðnason. Leikstjórn: Jón Gunnar Þórðarson. Leikmyndahönnun: Pétur Gautur Svavarsson. Búningahönnun: Rannveig Eva Karlsdóttir. Ljósahönnun: Freyr Vilhjálmsson. Hljóðhönnun og -stjórn: Gunnar Sigurbjörnsson.

Höfundur: Richard O´Brien´s. Þýðing: Veturliði Guðnason. Leikstjórn: Jón Gunnar Þórðarson. Leikmyndahönnun: Pétur Gautur Svavarsson. Búningahönnun: Rannveig Eva Karlsdóttir. Ljósahönnun: Freyr Vilhjálmsson. Hljóðhönnun og -stjórn: Gunnar Sigurbjörnsson. Tónlistarstjóri: Andrea Gylfadóttir. Dansahöfundur: Steinunn Ketilsdóttir Gervahönnun: Sunna Björk Hreiðarsdóttir. Hárkollugerð: Kristín Thors. Tæknileg ráðgjöf: Björn Bergsteinn Guðmundsson, Einar Rúnarsson

Það er við hæfi á þessum tímum að hefja þessa umfjöllun á játningu. Þegar ég fór á þessa sýningu hjá Leikfélagi Akureyrar hafði ég aldrei séð Rocky Horror, hvorki á sviði né tjaldi. Ég var eins konar jómfrú eins og einn költarinn sagði við mig í hléinu. Þess vegna mun ég hér fjalla um þessa sýningu en ekki verkið eða sögu þess. Hvernig var svo? Jú takk bara skemmtilegt, þetta er mikið show eins og nafnið bendir til og nálgun leikstjórans er að undirstrika það. Tónlistin er í aðalhlutverki og hljómsveitin var þétt og kraftmikil og leikararnir í aðalhlutverkum hörkusöngvarar, ljósasjóið eins og á rokktónleikum og búningarnir efnislitlir og vúlgar, gervin ýkt og rokkuð og áhorfendur með á nótunum með blístri, hrópum og klappi. Sem sagt hörkustemmning.

Þetta er ekki létt verk að leikstýra og auðvitað gat maður fundið ýmislegt sem betur mátti fara. Þannig var fyrri hluti sýningarinnar dálítið trekktur og kaoskendur. Augnablikin fengu ekki að lifa og fókusinn var ekki alltaf á hreinu. t.d. fór atriðið með Eddie fyrir ofan garð og neðan, sem var synd því Matthías er fantasöngvari en þarna vantaði betri fókuseringu og meira traust á að augnablikið stæði. Svona var víðar en ég hneigist til að skrifa sumt af því á stress og óöryggi sem fylgir frumsýningu, alltaf, hvað þá þegar verið er að opna nýtt leikhús, nýtt leiksvið, með nýjum tæknibúnaði. Á sama blað skrifa ég það ójafnvægi sem var í hljóðblönduninni, sérstaklega í fyrri hlutanum, en þá var hljómsveitin það miklu sterkari en söngvararnir að allir söngtextar fóru fyrir ofan garð og neðan hjá mér.Ég veit að þetta er algengt nöldur á söngleikjum en þetta var aðeins of mikið blast en lagaðist mikið eftir hlé.

En í heildina var ég ánægður með vinnu Jóns Gunnars. Hann náði að hafa leikstílinn bernskan og b- myndalegan þar sem það átti við en ekki síður að skapa kraftmiklar og vel útfærðar hópsenur eða númer þar sem dansar Steinunnar hjálpuðu til. Atriðið þar sem Frank (Magnús Jónsson) syngur lagið, Dreymdu ekki, vertu, er dæmi um flotta leikhúsvinnu sem allir geta verið stoltir af.

Það sem truflaði mig mest við heildarsvip sýningarinnar var kórinn. Ekki það að krakkarnir dönsuðu og sungu prýðilega en þau voru einhvern veginn of ung miðað við aðalleikarana og auk þess voru búningar kórsins einhvern veginn úr takti. Kannski var þetta eitt af því sem gerði fókuseringuna óhreina á pörtum.

Leiksýning stendur og fellur með leikurunum og svo var hér. Burðarhlutverkið Frank N Furter leikur Magnús Jónsson og, í stuttu máli, gerir það asskoti vel. Til að byrja með mátti greina hjá honum óöryggi eins og fleirum en í seinni hlutanum var hann gríðarsterkur og átti sviðið eins og sagt er. Ég ætla ekki að fara hér útí gamlar klisjur en þetta er feiki-kröfuhart hlutverk bæði í leik og söng og Magnús skilaði því með glæsibrag.

Aðrir aðalleikarar skiluðu sínu með miklum sóma. Sérstaklega vil ég nefna Eyþór Inga sem skilaði heilsteyptum og vel unnum Riff Raff. Þá kom Atli Þór mér á óvart með einlægum og hófstilltum leik og svo söng hann eins og engill. Jana María skilaði flottri Janet og þar er greinilega á ferðinni hörku söngkona. Andrea og Bryndís fá ekki úr miklu að moða leiklega en eru báðar frábærar söngkonur og þess nýtur sýningin. Guðmundur Ólafsson er pottþéttur sögumaður og Dr. Scott og Hjalti Rúnar ungur og massaður Rocky. Þetta er liðið sem heldur sýningunni uppi og gerir hana að því hörkushowi sem hún er.

Arnór Benónýsson

Höf.: Arnór Benónýsson