Guðni B. Guðnason
Guðni B. Guðnason
Eftir Guðna B. Guðnason: "Gera má Ísland samkeppnishæfara við sölu á hýsingu tölvukerfa og gagna með því að niðurgreiða þennan kostnað."

Síðla árs árið 2005 sendi stjórn Samtaka fyrirtækja í upplýsingatækni (SUT) frumlegt tilboð til þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur sem kallaðist „Þriðja stoðin“. Tilboðið hljóðaði upp á að upplýsingatæknigeirinn myndi tífalda gjaldeyristekjur af upplýsingatækni á árunum 2006-2012. Úr 4 milljörðum í 40 milljarða. Fjölga þyrfti starfsfólki til muna eða um 3.000 störf, þar af allt að 2.000 ný störf. Markmiðið var að auka sölu staðlaðra hugbúnaðarlausna sem íslensk fyrirtæki hafa þróað og myndu þróa í framtíðinni og stórauka hýsingu hér á landi á upplýsingakerfum og gögnum fyrir erlenda aðila með uppbyggingu gagnavera.

Forsendur þess að þessi metnaðarfullu markmið myndu nást voru að íslensk stjórnvöld hrintu í framkvæmd skilgreindum verkefnum sem sneru að skattamálum, útflutningi, stefnumörkun og samstarfi.

Samkvæmt tilboðinu var áætlað að jákvætt fjárflæði fyrir ríkið myndi nema um 3 milljörðum kr. Nettó skatttekjur voru áætlaðar um 5 milljarðar kr. og fjárfesting var áætluð um 2 milljarðar kr. Þessu tilboði var ýtt til hliðar og var raunar aldrei svarað heldur var stefna ráðuneytisins tekin á að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Þetta er rifjað upp sökum þess að núna fjórum árum seinna þarf að hlaupa til á síðustu stundu og útfæra sértæka skattalöggjöf til handa gagnaverum sem ætti að vera hluti af einhverri heildstæðri hugsun um hvernig við gerum þessa tegund af íslenskum iðnaði að raunhæfum og aðlaðandi kosti fyrir erlend fyrirtæki.

Ein af þeim hugmyndum sem settar voru fram í tilboðinu var að ríkið myndi niðurgreiða gagnaflutningskostnað til landsins um allt að 75%, væri gagnamagnið yfir einhverjum ákveðnum mörkum. Hugsunin var sú að gera Ísland að fýsilegum kosti fyrir hýsingu gagna erlendra aðila. Jafnframt var búinn til hvati til þess auka gagnamagnið. Núna sitjum við uppi með háan stofnkostnað vegna lagningar þessara sambanda til og frá landinu og lélegrar nýtingar. Þótt raforkukostnaður hér sé hagstæður og orkan sé græn (allavega ljósgræn) er ekki víst að það dugi eitt og sér þegar erlend fyrirtæki bera saman fýsilega valkosti. Ísland sem valkostur fyrir gagnaver hefur þann augljósa galla að fjarlægðir hingað eru miklar og kostnaður vegna tenginga yfir hafið ásamt kostnaði vegna varaleiða er umtalsvert meiri. Að auki er lítil sem engin samkeppni í sölu á þessum tengileiðum.

Líta má á gagnasambönd sem nútímavegagerð. Íslendingar hafa komið sér saman um að leggja vegi um allt land og brúa brýr yfir ófærar ár án þess að innheimta sérstaka vegatolla. Einstaklingar og fyrirtæki geta nýtt sér þessa vegi fyrir ýmsa virðisaukandi starfsemi sem síðan er skattlögð með eðlilegum hætti. Kæmi ekki til greina að dusta rykið af þessum hugmyndum? Niðurgreiða kostnaðinn vegna gagnasambandsins og taka þannig út kostnaðaraukann sem óhjákvæmilega fylgir staðsetningu landsins. Skattleggja síðan starfsemina eins og alla aðra starfsemi. Kæmi ekki til greina að iðnaðarráðuneytið dustaði rykið af þessari skýrslu þar sem fjármálamiðstöðin er hrunin til grunna?

Höfundur er tölvunarfræðingur.

Höf.: Guðna B. Guðnason