Atvinnumennska Snorri Sigurðarson trompetleikari er í íslensk-danska djasskvintettinum The Vallekillers.
Atvinnumennska Snorri Sigurðarson trompetleikari er í íslensk-danska djasskvintettinum The Vallekillers. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Árni Matthíasson arnim@mbl.is Íslensk-danski djasskvintettinn The Vallekillers heldur tónleika í Risinu, Tryggvagötu 20, á fimmtudagskvöld.

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Íslensk-danski djasskvintettinn The Vallekillers heldur tónleika í Risinu, Tryggvagötu 20, á fimmtudagskvöld. Kvintettinn rekur uppruna sinn til þess er þeir Snorri Sigurðarson trompetleikari og Sigurður Flosason saxófónleikari héldu til Danmerkur að taka þátt í náskeiði fyrir atvinnudjassara.

Undanfarin ár hefur verið haldið í Vallekilde á Sjálandi námskeið fyrir atvinnudjassara, framan af aðallega fyrir danska tónlistarmenn en síðustu ár hefur tónlistarmönnum frá hinum Norðurlandanna verið boðið að vera með, þar á meðal frá Íslandi. Að þessu sinni fóru þeir utan Snorri og Sigurður, en Snorri segir að það sé Sigurði að þakka að hann hafi farið utan: „Siggi bauð mér að vera með og ég kýldi á það.“

Snorri segir að námskeiðið sé ætlað fyrir starfandi tónlistarmenn, atvinnumenn í faginu, og fyrir vikið sé öll spilamennska í hæsta gæðaflokki, án þess hann vilji þó hampa sjálfum sér í því sambandi. „Ég lærði heilmikið á því að fá að spila með þessum mönnum og að fá að djamma með þeim fram eftir nóttu á hverju kvöldi,“ segir Snorri og bætir við að samburðurinn hafi líka sýnt honum að íslenskir djassspilarar standi norrænum starfsbræðrum lítt að baki, „Án þess þó að ég sé endilega að taka sjálfan mig með,“ segir hann og hlær við.

Í kvintettinum spilar Snorri á trompet og Sigurður á saxófón, Eyþór Gunnarsson leikur á píanó, Morten Ankerfeldt á kontrabassa og Janus Templeton á trommur, en þeir Ankerfeldt og Templeton eru í fremstu röð ungra djasstónlistarmanna í Kaupmannahöfn.

Flutt verður frumsamið efni eftir þá Sigurð og Snorra í bland við djassstandarda; „það kemur í ljós hvað við spilum þegar þeir lenda“, segir Snorri, en þeir Ankerfeldt og Templeton koma hingað frá upptökum í New York. „Námskeiðið var ekki síst gott í því að mynda tengslanet og þeir höfðu til dæmis samband við okkur til að geta tekið eitt gigg hér á leiðinni heim til Danmerkur og vonandi fær maður líka tækifæri til að spila úti.“

Tónleikarnir á fimmtudagskvöld hefjast kl. 21:00.