Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is Ekki eru allir á eitt sáttir um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

Einar Örn Gíslason

einarorn@mbl.is

Ekki eru allir á eitt sáttir um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Starfsnefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins skilaði nýverið tillögudrögum undir yfirskriftinni „Efling heilsugæslunnar“, en í þeim er gert ráð fyrir að heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu fækki og þær verði stærri.

Rökstuðningur nefndarinnar er á þann veg að stærri rekstrareiningar megi betur við röskun á starfsemi, svo sem vegna forfalla starfsfólks, að stærri stöðvar eigi auðveldara með að laga þjónustu sína að þörfum íbúa og að auðveldara verði að mæta faglegum og fjárhagslegum kröfum. Þannig skuli stefnt að því að í stað 5 til 7 lækna á hverri heilsugæslustöð verði um 15 til 20 læknar á hverja stöð.

Yfirstjórn Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur útfært tillögur að beiðni ráðuneytisins og meðal annars lagt það til að sameinaðar verði heilsugæslustöðvarnar í Efra-Breiðholti og í Mjódd, í húsakynnum þeirrar síðarnefndu.

Efast um faglegt inntak

Sigurbjörn Sveinsson, heilsugæslulæknir í Mjódd og fyrrverandi formaður Læknafélags Íslands og Félags íslenskra heimilislækna, segir tillögurnar hafa komið sér og samstarfsfólki á óvart. „Þessar tillögur koma okkur algjörlega í opna skjöldu. Við vissum að eitthvað yrði skorið niður, yfirmönnum jafnvel fækkað, en það að leggja ætti niður starfsstöðvar datt ekki nokkrum manni í hug,“ segir hann. Hann gerir athugasemd við framsetningu tillagnanna og segir þær kynntar undir því yfirskini að um fagleg sjónarmið sé að ræða.

Á forsendum niðurskurðar

Undirbúningsvinnan fór að mestu leyti fram á þeim forsendum að leita ætti leiða til sparnaðar með niðurskurði, fremur en að efla þjónustuna. „Aflvakinn er sparnaðarþörfin, en það er ekkert búið að skoða, að okkar mati, afleiðingarnar af þessu, þjónustubreytingar, faglegar afleiðingar og raunverulegan kostnað,“ segir hann. Starfsfólk heilsugæslustöðvanna tveggja í Breiðholti, sem sameina á, hefur lýst yfir andstöðu sinni við fyrirhugaðar breytingar, sem það segir fara gegn hagsmunum bæði þeirra sem þjónustuna nota og starfsmannanna sem hana veita. Sigurbjörn segir forsendurnar sem gengið sé út frá fyrst og fremst vera stjórnunarlegar. „Það er ekki gerð nein tilraun til þess að fjalla um það hvaða áhrif þetta hefur á starf lækna og annars starfsfólks, eða tengsl starfsfólksins við sjúklingana,“ segir hann, „meirihluti sjúklinga vill hafa „sinn lækni“, en það fyrirkomulag riðlast allt við svona aðgerðir.“
  • „Aflvakinn er sparnaðarþörfin, en það er ekkert búið að skoða afleiðingarnar“ Sigurbjörn Sveinsson