Flótti fjármagnseigenda í skuldabréf heldur áfram, ef marka má tölur um veltu á skuldabréfamarkaði í gær. Alls nam veltan með ríkis- og íbúðabréf 25,55 milljörðum króna í gær og hækkaði Skuldabréfavísitala GAMMA um 0,77 prósent og endaði í 211,58 stigum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,98 prósent og hefur hækkað um 4,07 prósent á einni viku og um 11,07 prósent á einum mánuði.
Óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,23 prósent í gær, en á einni viku hefur hann hins vegar lækkað um 0,05 prósent. Má draga þá ályktun að fjárfestar hafi áhyggjur af verðbólguþróun í náinni framtíð og vilji festa fé sitt í verðtryggðum bréfum.
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 0,49 prósent í ríflega 19 milljóna króna viðskiptum í gær. Bréf Össurar hækkuðu um 1,63 prósent, en bréf Marels lækkuðu um 0,74 prósent, Eikar banka um 0,72 prósent og BankNordik um 0,71 prósent. Lokagildi Úrvalsvísitölunnar var 963,08 stig.
bjarni@mbl.is