Þormóður Árni Jónsson
Þormóður Árni Jónsson — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Júdókappinn Þormóður Jónsson tapaði fyrir Japananum Daiki Kamikawa í 2. umferð í opnum flokki á heimsmeistaramótinu í júdó í Japan í gær.

Júdókappinn Þormóður Jónsson tapaði fyrir Japananum Daiki Kamikawa í 2. umferð í opnum flokki á heimsmeistaramótinu í júdó í Japan í gær. Kamikawa lagði Íslendinginn stóra og stæðilega á ippon, sem er fullnaðarsigur og það fór svo að lokum að Kamikawa fór alla leið og tryggði sér heimsmeistaratitilinn með því að leggja Frakkann Teddy Riner í úrslitaeinvígi.

Þormóður tók einnig þátt í +100 kg flokki þar sem hann tapaði fyrir Abdullo Tangriev frá Úsbekistan í 1. umferðinni en Tangriev vann silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum í Peking fyrir tveimur árum.

Þrír aðrir íslenskir júdómenn tóku þátt í mótinu. Hermann Unnarsson keppti í -81 kg flokki. Hann lagði júdómann frá Katar í 1. umferðinni en tapaði fyrir Tyrkja í 2. umferðinni.

Kristján Jónsson og Eyjólfur Eyfells kepptu í +73 kg flokki. Kristján lagði Fijibúa í 1. umferðinni en varð síðan að láta í minni pokann fyrir Tyrkja í 2. umferðinni. Eyjólfur sat hjá í 1. umferðinni en tapaði fyrir egypskum júdómanni í 2. umferðinni.

gummih@mbl.is