Sigrún Bjarney Ólafsdóttir fæddist 8. júní 1928 í Vestra-Gíslholti sem stóð þar sem nú er Ránargata í Reykjavík. Hún andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 1. september 2010.

Útför Sigrúnar var gerð frá Seljakirkju 9. september 2010.

Mig langar að minnast ömmu minnar Sigrúnar B. Ólafsdóttur sem lést 1.9. síðastliðinn.

Amma var alltaf stór partur af lífi mínu alveg frá fyrsta degi. Ég er fædd heima hjá afa og ömmu á Laugarnesvegi 116 og bjó hjá þeim með mömmu og pabba og systur minni þegar hún bættist í hópinn 2 árum á eftir mér. Æskuminningar mínar tengdar ömmu eru margar. Amma kenndi mér að t.d. að meta leikhúsið og þegar ég var barn fóru amma og afi oft með okkur barnabörnin sín í leikhús til þess að sjá barnaleikrit. Seinna áttum við saman ársmiða í Þjóðleikhúsið, vanalega á einum af 4 fremstu bekkjunum og finnst mér ég alltaf þurfa að sitja framarlega eftir það.

Fyrsta vinnan mín var í búðinni hjá afa og ömmu, ætli ég hafi verið nema 12 ára og varð það einn af föstu punktunum að vinna hjá þeim með skólanum. Amma kenndi mér að meta fallega tónlist og fór ég t.d. oft með henni á tónleika, t.d. í Íslensku óperunni og það var mest gaman að fylgjast með upplifun ömmu á tónleikunum því hún táraðist auðveldlega þegar hún naut fallegrar tónlista því hún var svo hrifnæm.

Sumarbústaðurinn í Grímsnesinu var einn af föstu punktunum í tilverunni. Sem barn fór ég með ömmu og afa þegar þau voru að byggja sumarbústaðinn eða þegar t.d. rollur höfðu komist inn fyrir girðinguna og gætt sér á gróðrinum sem amma var að rækta, þá varð hún reið.

Þær hafa verið margar og góðar stundirnar sem ég hef átt í sumarbústaðnum, fyrst sem barn með afa og ömmu, mömmu og pabba og systkinum mínum og seinna með minni fjölskyldu. Dóttir mín Íris Marí er alin upp við það að á sumrin fer maður í sumarbústaðinn til ömmu og finnst henni það vera sælureitur.

Amma hafði yndi af garðyrkju og leið henni best þegar hún var úti í garði eittvað að sinna plöntunum og ber sumarbústaðarlandið því vitni þar er nú 15 metra hár skógur og vel hirt grasflöt sem amma sá um að slá alveg fram til hins síðasta en hún var með sláttutraktor sem hún keyrði um eins og ekkert væri. Hún var líka með gróðurhús með fallegum blómum sem hún kom til heima og fór svo með í sumarbústaðinn og sinnti þeim af mikilli natni. Amma skaust oft austur fyrir fjall til að vökva blómin svo þau ofþornuðu ekki. Henni fannst það ekkert stórmál að skjótast svona dagstund á milli þess sem hún sinnti áhugamálunum sem voru mörg. Hún söng í Gerðubergskórnum og í Vinabandinu, hún var í spilahóp, hún var dugleg að sækja listviðburði og fara í óperubíó og svona mætti lengi telja. Amma var líka dugleg að ferðast og oftar en ekki var verið að skipuleggja utanlandsferð eða hún var nýkomin úr einni.

Við amma áttu mjög gott samband alla tíð og aldursmunurinn var aldrei neitt mál, amma var vel inni í öllum málum og var hægt að spjalla við hana um alla hluti, hún var alltaf með á nótunum og hafði myndað sér sína skoðun.

Elsku amma mín, mig langar að lokum til að þakka þér fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Ég verð lengi að sætta mig við að geta ekki hringt í þig til að spjalla eða skotist til þín í kaffibolla.

Hvíl í friði.

Kristrún.

Sigrúnar föðursystur verður sárt saknað. Í hugann koma fyrstu minningar um lífleg jólaboð á Laugarnesveginum hjá henni og Hilmari og síðar heimsóknir í sumarbústaðinn í Grímsnesi. Já,

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

(V. Briem.)

Fyrir hennar tilstilli urðum við Sigrún vinnufélagar hjá G.J. Fossberg árið 1980. Þá kynntist ég betur mörgum kostum hennar eins og vinnusemi, eldmóði, fyrirhyggjusemi, nægjusemi og nýtni. Allt þetta nýttist fyrirtækinu við stjórn á fjármálum þess. Þetta var skuldlaust fyrirtæki og séð til þess að alltaf væri nægt fé til fyrir mikilvægum útgjöldum eins og vörukaupum, launum og sköttum. Sjálfsaflafé átti að duga til vaxtar og viðgangs þess fyrirtækis. Hún reyndi að hafa hemil á óþarfa eyðslu. Minnist ég þess þegar ég notaði tækifærið og „stalst“ til að kaupa hraðsuðuketil í stað þess ónýta þegar ég leysti hana af í nokkra daga. Hún kom úr fríinu með gamlan ketil að heiman. Undrandi og orðlaus yfir uppátæki mínu gaf hún mér þann gamla sem enn er í notkun þrjátíu árum seinna. Skilaboðin voru skýr og ógleymanleg.

Hún var ekkert sérstaklega fyrir glingur, prjál og pjatt, en naut sín þeim mun meira við að nostra við sína garða og gróður við Sævargarða og í Grímsnesi. Garðlist, sönglist, myndlist og leiklist voru henni hjartfólgin. Söngáhuginn og starf með kórum og öðru söngfólki var stór þáttur í lífi hennar. Lífssaga hennar öll lýsir dugnaðarfork sem unni sér vart hvíldar því alltaf þurfti eitthvað að vera að gerast. Hún vildi fá mörgu áorkað og lagði metnað sinn í það sem hún tók sér fyrir hendur.

Hún var ættrækin og ýtti við yngri kynslóðinni til að taka höndum saman ef henni þótti tími til kominn að stórfjölskyldan hittist, þ.e. afkomendur ömmu hennar og afa og árlega sá hún um að útvega húsnæði fyrir litlu ættarmót afkomenda foreldra hennar. Hvað gerum við nú þegar hennar nýtur ekki við?

Eftir stutt samtal við Sigrúnu degi fyrir þá erfiðu hjartaaðgerð sem hún gekkst undir tveimur dögum fyrir andlátið varð ég fullur trúar á að allt gengi að óskum. Hún var æðrulaus þótt hún vissi mæta vel að brugðið gæti til beggja vona, það slæm var hún orðin af sjúkdómnum. Með sama áframhaldi væri framtíðin ekki vænleg, betra væri að taka áhættuna. Hún hafði greinilega búið sig undir það versta. Meira að segja drifið sig á leiksýningar sem hún vildi ekki missa af. Hún hafði því miður ekki lánið með sér að þessu sinni. Blessuð sé minning Sigrúnar.

Ég votta dætrunum Dóru og Ólöfu og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Halldór Ó. Sigurðsson.