Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, lýstu sig tilbúna að standa að tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, lýstu sig tilbúna að standa að tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Þingmannanefndin náði ekki samstöðu um tillögu um að slík rannsókn færi fram. Atli Gíslason sagði að hann hefði ákveðið að sitja hjá þegar þetta var rætt í þingmannanefndinni. Hann hefði gert það vegna þess að hann hefði lagt mikla áherslu á að reyna ná samstöðu í nefndinni.

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaformaður nefndarinnar, sagði að rannsóknarnefnd Alþingis hefði rannsakað afmarkaða þætti í sambandi við einkavæðingu bankanna og það sama hefði Ríkisendurskoðun gert. Hún sagðist ekki hafa trú á að frekari rannsókn á þessu sviði breytti neinu. Fyrir lægju ítarleg gögn um þetta mál og á grundvelli þeirra hefði öll þingmannanefndin lagt fram tillögu sem fæli í sér alvarlega gagnrýni á hvernig að einkavæðingunni var staðið.

Í þingsályktunartillögunni sem nefndin öll stendur að segir: „Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna.“

Unnur Brá gagnrýndi yfirlýsingar forsætisráðherra um að ef þingmannanefndin ætlaði ekki að rannsaka einkavæðingu yrði að skipa sérstaka nefnd til að gera það. Með þessu hefði ráðherra reynt að hafa áhrif á störf nefndarinnar.

Unnur og Sigmundur Davíð bentu á að ef ætti að rannsaka einkavæðingu bankanna frekar væri eðlilegt að skoða í því sambandi hvernig einkaaðilar hefðu eignast bankana aftur eftir hrunið. Í umræðunum var bent á að rannsóknarnefndin hefði ekki rannsakað einkavæðinguna til hlítar. egol@mbl.is