Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Reykjanesbær gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Reykjanesbær gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Nefndin leitist við að draga upp dökka og einhæfa mynd af stöðunni, útreikningar hennar séu mjög umdeilanlegir og framsetning nefndarinnar hafi stórskaðað vinnu bæjarins við endurfjármögnun. Í svari til nefndarinnar vegna 1,8 milljarða kr. erlends láns sem átti að greiða 1. ágúst sl. kemur fram að fulltrúar erlends banka, sem á kröfuna, séu væntanlegir til viðræðna í þessari viku.

Í bréfi sem Árni Sigfússon bæjarstjóri, Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs og Gunnar Þórarinsson, forseti bæjarstjórnar, sendu nefndinni, er gagnrýnt að borinn sé saman mjög takmarkaður hluti af árstekjum Reykjanesbæjar við uppreiknaðar skuldir og skuldbindingar sveitarfélags sem geti dreifst yfir 50 ár eða lengur. Áhersla á skuldaútreikning, þar sem lífeyrisskuldbindingar til áratuga fram í tímann og uppreiknaðar árlegar greiðslur til eignarhaldsfélagsins Fasteignar til 30 ára, sé umdeilanleg, til samanburðar á móti eins árs skatt- og þjónustutekjum.

„Mjög pólitískt ráðuneyti“

Þeir gagnrýna einnig að peningalegar eignir Reykjanesbæjar, í bönkum og skuldabréfum, sem alls nemi 9 milljörðum, séu hvergi settar fram til frádráttar skuldum. Fleira er gagnrýnt, en að lokum segja þeir alls ekki við hæfi að „mjög pólitískt ráðuneyti“, sem svari ekki erindum bæjarins og leki ósendum bréfum til fjölmiðla og þar sem ráðherra hafi ítrekað snuprað bæjaryfirvöld í fjölmiðlum, skuli hýsa eftirlitsnefndina. Krefjast þeir þess að Samband íslenskra sveitarfélaga komi mun meira að nefndinni.

Eftirlitsnefndin hefur rætt erindi Reykjanesbæjar og vinnur að svari.

Viðræður vegna vanskila
» Í svari Reykjanesbæjar til eftirlitsnefndarinnar kemur fram að krafa vegna 1,8 milljarða erlends láns sem Reykjanesbær tók hjá þýskum banka sé nú hjá DePfa-bankanum á Írlandi.
» Viðræður við bankann standa yfir. Fulltrúar hans eru væntanlegir til landsins í þessari viku.