Eitt undarlegasta baráttumál vinstrimanna, fyrr og síðar, er að ríkið eigi að bera ábyrgð á skuldbindingum fjármálastofnana.

Eitt undarlegasta baráttumál vinstrimanna, fyrr og síðar, er að ríkið eigi að bera ábyrgð á skuldbindingum fjármálastofnana. Hinir svokölluðu félagshyggjumenn, sem kenna sig við mannúð og umhyggju fyrir lítilmagnanum, vilja að almenningur beri kostnaðinn, ef einkaaðilar í bankakerfinu skuldsetja sig upp í rjáfur og fara í þrot vegna þess. Svo fáránlega sem það nú hljómar.

Vinstrimenn vilja eftirlit, til að koma í veg fyrir að bankar stækki og nýti sér ríkisábyrgðina á „óeðlilegan hátt“. Þeir átta sig ekki á því, að ekkert eftirlit í heiminum kemur í veg fyrir að hugvitssamir bankaeigendur finni leiðir til að nýta sér ríkisábyrgðina á starfsemi banka. Ef eftirlit er þess megnugt, af hverju þarf þá ríkisábyrgð?

Þessi ábyrgð, sem ríkið var talið bera á bönkunum hér á landi, er aðalorsök bankahrunsins í októbermánuði fyrir nærri tveimur árum. Vissulega bendir margt til þess, að eigendur bankanna hafi tæmt þá innan frá. En af hverju fengu þeir alla þessa peninga? Það var vegna ætlaðrar ábyrgðar ríkisins á starfsemi íslensku bankanna. Inn í þá streymdi ódýrt erlent fjármagn í þvílíkum mæli að lyginni var líkast. Lánardrottnar þeirra, erlendir bankar sem voru sjálfir að drukkna í ókeypis lánsfé, sáu ekki ástæðu til að skoða rekstur bankanna ofan í kjölinn. Þeim var nóg að treysta á lánshæfismat þeirra, sem var fyrsta flokks. Lánshæfismatsfyrirtækin horfðu sömuleiðis framhjá meginatriðum í rekstri bankanna og einblíndu á ríkisábyrgðina. Annars hefði ýmislegt komið í ljós, eins og uppgröftur rannsóknarnefndar Alþingis sýndi í vor.

Ég fullyrði, að rekstur íslenskra banka var í meginatriðum svipaður rekstri annarra banka í veröldinni. Enda hefur komið í ljós að bankar eiga almennt ekki fyrir skuldbindingum sínum. Evrópskir bankar eru á neyðarspena seðlabanka álfunnar og bandaríski seðlabankinn hefur tekið yfir þvílíkt magn eitraðra fasteignalána og dælt þvílíku magni peninga í bankakerfið, að annað eins hefur aldrei sést. Munurinn á erlendum bönkum og íslenskum var fyrst og fremst sá, að hægt var að prenta nýja peninga til að bjarga þeim erlendu í bili. Við gátum aldrei prentað dollara eða evrur. Ég ætla að leyfa mér að spá því, að á næstu misserum eða árum verði þróun í erlendu efnahagslífi, sem setji ófarir okkar í annað samhengi en við sjáum í tilfinningaflóði augnabliksins.

Þetta líkan vinstrimanna, að gefa bankamönnum lausan tauminn á kostnað almennings, og treysta á eftirlit sem aldrei getur þjónað hlutverki sínu að fullu, kallar á spuna. Núna þarf að „draga menn til ábyrgðar“. Lesist: setja þá í gapastokkinn, svo almenningur geti svalað hefndarþorstanum á áhorfendapöllunum. Það er ekki mannúð. Það er villimennska. ivarpall@mbl.is

Ívar Páll Jónsson

Höf.: Ívar Páll Jónsson