Sextán ára gamall sonur Víkverja hóf glímu sína við Laxness um helgina. Kappinn er kominn í framhaldsskóla og fékk strax það verkefni að skrifa kjörbókarritgerð í íslensku. Fyrir valinu varð Barn náttúrunnar, fyrsta verk nóbelsskáldsins.

Sextán ára gamall sonur Víkverja hóf glímu sína við Laxness um helgina. Kappinn er kominn í framhaldsskóla og fékk strax það verkefni að skrifa kjörbókarritgerð í íslensku. Fyrir valinu varð Barn náttúrunnar, fyrsta verk nóbelsskáldsins. Víkverji hafði lúmskt gaman af þessu enda skrifaði hann sjálfur kjörbókarritgerð um Barn náttúrunnar þegar hann var í framhaldsskóla, án þess að sonurinn hefði minnstu hugmynd um það. Víkverji les sjaldan upp úr gömlum kjörbókarritgerðum fyrir afkvæmi sín.

Rimman hófst á laugardag og Víkverji fylgdist út undan sér með viðbrögðum sonarins. Til að gera langa sögu stutta sökk hann eins og steinn inn í söguna, las bókina að mestu í tveimur lotum um helgina. Að morgni sunnudags gerði hann stutt hlé á lestrinum til að gera dönskuverkefni. Í miðjum klíðum lagði hann blýantinn frá sér og mælti: „Djöfull hlakka ég til að halda áfram með Laxness!“ Víkverji biður lesendur að afsaka orðbragðið, það skrifast á uppeldið.

Þegar mest lá við í seinni hluta bókarinnar á sunnudag, gekk sonurinn um gólf og las upphátt. Honum var sérstaklega brugðið þegar Randver lagðist í ástarsorg. Heimilismenn og gestir hlýddu andaktugir á lesturinn og hundurinn starði í forundran á upplesarann. Rak upp stöku gól.

Laxness á greinilega ennþá upp á pallborðið hjá æsku þessa lands. Eins og það komi einhverjum á óvart.

Kunningi Víkverja hringdi í viðskiptabankann sinn í gær og óskaði eftir því að millifæra fé. „Hversu mikið?“ spurði ómþýð röddin á hinum enda línunnar.

300 kall, svaraði kunninginn.

„Já, þrjú hundruð þúsund,“ sagði þá röddin um hæl.

Nei, nei, ansaði kunninginn, felmtri sleginn, bara þrjú hundruð krónur!!!

Þeir hugsa greinilega ennþá stórt í bönkunum.