„Ég reikna nú með að verða í faðmi fjölskyldunnar í kvöld,“ segir Anna Vilhjálms, söngkona, sem verður 65 ára í dag. Hún hyggst vera í faðmi fjölskyldunnar á afmælidaginn. Aðstæður bjóða reyndar ekki upp á mikil veisluhöld.

„Ég reikna nú með að verða í faðmi fjölskyldunnar í kvöld,“ segir Anna Vilhjálms, söngkona, sem verður 65 ára í dag. Hún hyggst vera í faðmi fjölskyldunnar á afmælidaginn.

Aðstæður bjóða reyndar ekki upp á mikil veisluhöld. Anna og vinur hennar keyptu nýlega hús í Vesturbænum í Reykjavík og þurftu að láta endurnýja frárennslislagnir að stórum hluta. Þeim framkvæmdum er nánast lokið en ekki alveg og því hentar húsið illa til veisluhalda. „Það er ekki einu sinni hægt að bjóða fólki til stofu, maður verður bara að halda standandi partí,“ segir hún í léttum dúr. Í staðinn verði bara að halda stærri veislu næst.

Anna söng fyrst opinberlega 16 ára gömul og söngferillinn spannaði um 40 ár, bæði hérlendis og í Bandaríkjunum. Anna hyggur ekki á endurkomu. Hún veiktist fyrir nokkru af lungnaþembu en sá sjúkdómur er afar óhagfelldur söngvurum. „Ég get alveg sungið en þetta er allt miklu erfiðara. Maður þarf að læra nýja öndun og ég hreinlega nenni því ekki, segir hún og hlær dátt. „Mér finnast 40 ár vera ágætur tími. Ég hélt upp á 40 ára söngafmæli árið 2001 og það var eiginlega endapunkturinn,“ segir hún. runarp@mbl.is