Stefnuskipti? Ögmundur Jónasson boðar öðruvísi áherslur í sameiningarmálum en forveri hans í ráðuneytinu, Kristján L. Möller.
Stefnuskipti? Ögmundur Jónasson boðar öðruvísi áherslur í sameiningarmálum en forveri hans í ráðuneytinu, Kristján L. Möller. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sameining sveitarfélaga er í deiglunni víða um land.

Fréttaskýring

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sameining sveitarfélaga er í deiglunni víða um land. Ekki er þó útlit fyrir að tillaga að nýrri sveitarfélagaskipan verði lögð fyrir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust, eins og að var stefnt, og ekki ljóst hvort eða hvenær málinu verður fylgt eftir með lagasetningu.

Sveitarfélögum hefur fækkað hægt síðustu árin og enn er lögbundinn lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi 50 manns. Verið er að færa mikil verkefni frá ríki til sveitarfélaga, málefni fatlaðra og aldraðra og áhugi er á því að færa til fleiri verkefni á næstu árum. Víða eru sveitarfélögin of smá til að taka við þeim, hvert fyrir sig. Vegna þessa settu Kristján L. Möller, þáverandi ráðherra sveitarstjórnarmála, og Samband íslenskra sveitarfélaga á fót samstarfsnefnd til að vinna að nýju sameiningarátaki.

Samstarfsnefndin hefur verið að kynna hugmyndir sínar fyrir heimamönnum undanfarna daga og vikur í þeim tilgangi að koma umræðunni af stað. Sums staðar hafa heimamenn tekið frumkvæðið.

1-3 sveitarfélög í kjördæmi

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa látið vinna skýrslu um kosti og galla þess að sameina öll sveitarfélögin í eitt. Ekki virðist áhugi á svo stóru skrefi og er nú stefnt að því að skoða smærri sameiningar á grunni þessarar vinnu. Meðal kosta er að sameina Vesturland í þrjú sveitarfélög með því að Hvalfjarðarsveit renni saman við Akranes eða sveitarfélögin í Borgarfirði og Dölum og að Snæfellsnes verði eitt sveitarfélag.

Sú stefna hefur verið uppi á Vestfjörðum að vinna að sameiningu kjálkans. Andstaða er við það. Á sama tíma hafa verið uppi umræður um sameiningu Bolungarvíkur, Ísafjarðar og Súðavíkur í kjölfar Bolungarvíkurganga. Til umræðu hefur komið að skipta Vestfjörðum í 2-3 sveitarfélög, norðursvæði, suðursvæði og ef til vill Strandir sér.

Samstarfsnefndin lagði tvær hugmyndir fyrir sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra. Annarsvegar að sameina allt svæðið og hinsvegar að skipta því í tvö þannig að Skagafjörður yrði eitt sveitarfélag og Húnavatnssýsla með Bæjarhreppi á Ströndum annað.

Umræðan er lítið farin af stað á Norðurlandi eystra. Þar eru samgöngubætur að komast í gagnið með Héðinsfjarðargöngum og nýjum vegi um Melrakkasléttu. Þar þykir liggja beint við að sameina sveitarfélögin við Eyjafjörð og að Þingeyjarsýsla verði annað sveitarfélag.

Frumkvæði á Austurlandi

Heimamenn á Austfjörðum tóku frumkvæðið í fyrra með skipan verkefnisstjórnar til að skoða kosti og galla sameiningar allra sveitarfélaganna. Skýrsla starfshópsins verður kynnt á næstunni. Fulltrúar allra sveitarfélaganna hafa tekið þátt í starfi nefndarinnar en fram hefur komið að áhugi er mismikill, eins og víðar. Þannig virðist Fjarðabyggð sem varð til með sameiningu margra sveitarfélaga vera búin að fá nóg í bili. Hugsanlegt er að málið taki þá stefnu eftir komandi aðalfund Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi að hugað verði að sameiningu í tvö sveitarfélög, í kringum risana tvo, Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð. Þá myndu Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Borgarfjörður og Fljótsdalshreppur sameinast Fljótsdalshéraði.

Umræðan er lítið komin af stað á Suðurlandi. Fulltrúar ráðuneytisins hafa þó lagt fram tvær hugmyndir, annars vegar um tvö sveitarfélög og hins vegar fimm. Fyrri hugmyndin gerir ráð fyrir að Árnessýsla sameinist og Rangárvallasýsla, báðar Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjar renni saman. Hin tillagan gengur út á það að Árnessýsla skiptist í tvö sveitarfélög þar sem Ölfus og Hveragerði sameinist og að uppsveitir Árnessýslu og Flóahreppur sameinist Árborg. Rangárvallasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla sameinist í eitt. Þá yrðu Vestmannaeyjar og Hornafjörður sér sveitarfélög áfram. Á fundinum kom fram þriðja hugmyndin, það er að Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýsla sameinist í eitt sveitarfélag, með eða án Hornafjarðar og Vestmannaeyja. Þess ber að gera að Vestmannaeyjabær afþakkaði boð um að skipa fulltrúa í sameiningarhóp á Suðurlandi. Það vekur athygli í ljósi umræðna um aukna samvinnu í kjölfar bættra samgangna milli lands og eyja.

Sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni sem eru hvattir til að sameinast í víðlend sveitarfélög benda gjarnan á litla þróun til sameiningar á suðvesturhorninu. Þar eru mörkin víða aðeins lína á landakorti og ekki yfir neina fjallvegi að fara.

Suðurnesin eru eitt atvinnusvæði og landfræðileg heild. Þar er lögð fram hugmynd um sameiningu allra sveitarfélaganna fimm. Einnig er stungið upp á sameiningu bæjanna utan Reykjanesbæjar, það er Sandgerðis, Garðs, Voga og Grindavíkur.

Engin sameining hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu frá því Kjalarnes rann inn í Reykjavík. Álftanes þarf að finna skjól, af illri nauðsyn, og á í viðræðum við Garðabæ. Einhvern tímann hafa komist á glæru hugmyndir um sameiningu Seljarnarness og Kjósarhrepps við Reykjavík. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu taka sameiningarmálin inn í vinnu við greiningu á möguleikum aukins samstarfs sveitarfélaganna.

SAMEININGARÁTAK

Ekki talsmaður lögþvingunar

Ef áhugi er á að fækka verulega sveitarfélögum þarf að koma til lagasetningar. Það er mat sveitarstjórnarmanna sem rætt er við. Íbúar fámennra sveitarfélaga sem búa við sérstakar aðstæður fella oftast tillögur um sameiningu. Nýr ráðherra sveitarstjórnarmála segist ekki talsmaður þvingunarleiðar.

Í yfirlýsingu Kristjáns L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, og Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, er rætt um nýjar leiðir um sameiningu og boðað að lögð verði fyrir Alþingi áætlun um sameiningar fram til ársins 2014. Þótt það sé ekki sagt berum orðum og Sambandið haldi því til haga að það hefur lögþvingun ekki á stefnuskrá sinni, er ljóst að í þessu felast áform um að beita lögum til að knýja á um sameiningar.

Unnið hefur verið að málinu á þessum grundvelli í meira en ár. Það verður rætt á landsþingi Sambandsins í lok mánaðarins. Hins vegar hefur skapast óvissa vegna breytinga í ráðherraliðinu. Ögmundur Jónasson sagði á aðalfundi SSV í Ólafsvík, eðlilegt að kanna hvernig hægt væri að stækka þessar mikilvægu einingar og styrkja. Hann ítrekaði þó að hann væri ekki talsmaður þess að fara leið þvingunar, íbúarnir yrðu að ákveða það í sínum byggðarlögum.

Halldór Halldórsson gagnrýnir ekki stefnu nýja ráðherrans en segir ótrúverðugt þegar ríkisstjórn sömu flokkanna bjóði upp á tvenns konar stefnu í þessum málum.

„Sveitarfélögin hafa unnið vel með Kristjáni Möller að undirbúningi tillagna um sameiningu sveitarfélaga. Ég heyri það á mörgum sveitarstjórnarmönnum að þeim þykir það óþægilegt þegar einhver allt önnur stefna kemur ofan í þá vinnu með nýjum ráðherra sömu stjórnar,“ segir Halldór.