Norðmenn vilja ekki í ESB
Norðmenn vilja ekki í ESB
Tæp 65% Norðmanna eru andvíg aðild landsins að Evrópusambandinu. Fjórðungur er fylgjandi aðild, en 10% taka ekki afstöðu. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun markaðsrannsóknafyrirtækisins Sentio. Stuðningur við aðild hefur aldrei mælst jafn lítill.

Tæp 65% Norðmanna eru andvíg aðild landsins að Evrópusambandinu. Fjórðungur er fylgjandi aðild, en 10% taka ekki afstöðu. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun markaðsrannsóknafyrirtækisins Sentio. Stuðningur við aðild hefur aldrei mælst jafn lítill. Formaður Evrópusamtakanna í Noregi, Paal Frisvold, segir niðurstöðurnar ekki koma sér á óvart. Evrópusambandið freisti ekki eins og sakir standa. Fólki finnist Norðmenn jafnframt valdalausir þegar kemur að innleiðingu tilskipana Evrópska efnahagssvæðisins. Hann segir að efla þurfi upplýsingagjöf um kosti aðildar.

Leiðtogi samtakanna „Nei við ESB,“ Heming Olaussen segist mjög ánægður með niðurstöðuna. „Það er ótrúlegt að andstaðan skuli enn vera svona mikil. Ég hefði haldið að drægi úr henni þegar áhrif fjármálakreppunnar fjöruðu út. Ég er feginn að vera ekki í sporum aðildarsinnanna,“ segir Olaussen, og bætir því við að mörgum finnist sambandið vera á rangri braut. „Verkefnið verður stöðugt yfirþjóðlegra, með of marga meðlimi. Fólk vill fá ákvörðunarréttinn til baka.“

einarorn@mbl.is