Spunameistarar réðu fréttamati ljósvakamiðlanna. Því fór illa

Morgunblaðið birti fyrir nokkru fréttir um í hvað stefndi varðandi niðurstöður þingnefndarinnar, sem fara átti yfir verk Rannsóknarnefndar Alþingis. Var þar gefin glögg mynd af þeim niðurstöðum sem líklegastar væru orðnar og um hvað væri tekist á innan nefndarinnar og í hinu pólitíska nærlandi hennar. Jafnframt fjallaði blaðið um hvernig mál væru að þróast innan þingflokka og hvaða viðhorf væru helst uppi til starfa þingnefndarinnar og um óróleikann sem færi vaxandi í Samfylkingunni og hvernig afstaðan væri að breytast innan Sjálfstæðisflokksins. Og einnig var sagt frá afskiptum tiltekinna ráðamanna af starfi þingnefndarinnar.

Ljósvakamiðlarnir byrjuðu að feta þessa fréttaslóð en hættu skyndilega, þegar talsmaður Samfylkingarinnar kom í útvarpsþátt og fullyrti að fréttir Morgunblaðsins væru rangar og blaðið hefði engar heimildir fyrir skrifum sínum. Fleiri hjuggu í sama knérunn og spöruðu ekki stóryrðin. Og oddvitar stjórnarflokkanna sóru af sér alla vitneskju um málið og virtust illa halda ró sinni og jafnaðargeði vegna fréttanna. Forsætisráðherrann sagðist ekki kannast við neinn pirring innan Samfylkingarinnar vegna málsins og virtist nota gylfísku sannleiksmælistikuna á eigin orð.

Nú þegar allt hefur gengið eftir sem Morgunblaðið sagði frá eiga þeir miðlar sem létu taka sig í bólinu ekki marga góða kosti. Sá fyrsti er ekki afleitur fyrir burðuga menn. Þá viðurkenna menn, að minnsta kosti fyrir sjálfum sér, að heimildir Morgunblaðsins virðist hafa verið mjög traustar. Ef manndómurinn dugar ekki til að ráða við svo augljósa niðurstöðu eiga þeir næst þann kost að telja að blaðamenn Morgunblaðsins séu í hlutverki sjáanda sem sjái fram í tímann af undraverðri nákvæmni og þurfi því enga heimildarmenn. Ekki er líklegt að mönnum þyki slíkur kostur fýsilegur á upplýsingaöld.

En hitt er augljóst að fjölmiðlar geta ekki verið ánægðir með að líta út eins og flón sem sjái ekki handaskil í fréttaflórunni miðri og láti því auðveldlega spila með sig. Því hljóta þeir að geta dregið þann lærdóm af snautlegri frammistöðu að í framtíðinni kæmi til athugunar að láta ekki fréttamat Samfylkingarinnar einnar ráða því hvort þýðingarmestu mál séu tekin til umræðu eða ekki.