[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Kárason lék sinn annan leik á tveimur dögum með tveimur liðum í þýska handboltanum á laugardaginn. Hann yfirgaf Füchse Berlín eftir leik liðsins á föstudagskvöld og á laugardaginn skoraði Rúnar 3 mörk í sínum fyrsta leik með 2.

R únar Kárason lék sinn annan leik á tveimur dögum með tveimur liðum í þýska handboltanum á laugardaginn. Hann yfirgaf Füchse Berlín eftir leik liðsins á föstudagskvöld og á laugardaginn skoraði Rúnar 3 mörk í sínum fyrsta leik með 2. deildar liðinu Bergische. Nýja liðið hans hafði þá betur á útivelli gegn Erlangen, 28:27. Í sömu deild var Arnór Þór Gunnarsson markahæstur í liði Bittenfeld með 7 mörk þegar það tapaði á útivelli fyrir Hüttenberg, 25:24.

FH-ingar báru sigur úr býtum á Norðlenska mótinu í handknattleik sem haldið var á Akureyri um helgina. FH hafði betur gegn Akureyri í úrslitaleik, 29:26, þar sem Ásbjörn Friðriksson fór á kostum en hann skoraði 12 mörk í leiknum. Áður höfðu FH-ingar lagt Stjörnumenn að velli, 34:24 og Valsmenn, 31:24.

Enska knattspyrnusambandið hefur ákært David Moyes , knattspyrnustjóra Everton, og Steve Round , aðstoðarmann hans, fyrir framkomu þeirra í lok leiksins við Manchester United í úrvalsdeildinni á laugardaginn. Everton jafnaði metin úr 1:3 í 3:3 í uppbótartíma leiksins og var síðan í skyndisókn þegar Martin Atkinson flautaði leikinn af. Moyes og Round skeiðuðu inn á völlinn og helltu sér yfir Atkinson.

Leikdagar hafa verið festir fyrir viðureignir Íslands og Skotlands í umspili um sæti í úrslitakeppni Evrópumóts 21 árs landsliða í knattspyrnu. Fyrri leikurinn fer fram á Laugardalsvellinum fimmtudagskvöldið 7. október en sá seinni á Easter Road, heimavelli Hibernian í Edinborg, mánudagskvöldið 11. október. A-landslið Íslands leikur við Portúgal 12. október á Laugardalsvelli.

Evander Sno , leikmaður hollenska knattspyrnufélagsins Ajax, var lífgaður við í gærkvöld eftir að hafa fengið hjartastopp í leik með varaliði félagsins gegn Vitesse. Sno, sem er 23 ára gamall Hollendingur, hneig niður í miðjum leik og ekki náðist að hnoða lífi í hann til að byrja með. Það tókst síðan með hjartastuðtækjum sem voru til staðar á vellinum. Sno var fluttur á sjúkrahús og var kominn til meðvitundar þar og farinn að anda sjálfur, að sögn vefsíðu De Telegraaf. Sno lék á síðasta tímabili sem lánsmaður með enska 1. deildar liðinu Bristol City.