Guðjón Þórðarson
Guðjón Þórðarson
Guðjón Þórðarson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Stoke, telur að Eiður Smári Guðjohnsen geti sett verulegt mark á Stoke-liðið. Eiður er 15.

Guðjón Þórðarson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Stoke, telur að Eiður Smári Guðjohnsen geti sett verulegt mark á Stoke-liðið. Eiður er 15. íslenski knattspyrnumaðurinn sem kemur við sögu hjá enska liðinu en fékk þó ekki tækifæri í gærkvöld og sat á varamannabekknum þegar Stoke vann Aston Villa, 2:1.

Sjálfur fékk Guðjón níu Íslendinga til að leika undir sinni stjórn þegar hann var við stjórnvölinn hjá Stoke á árunum 1999-2002. Honum tókst ekki að fá Eið þar sem hann var það dýr fyrir félagið á þeim tíma en Eiður Smári lék undir stjórn Guðjóns þegar hann stýrði íslenska landsliðinu.

„Ég tók hann ungan inn í landsliðið eftir að hann hafði átt við erfið ökklameiðsli að stríða. Eiður stóð sig vel undir minni stjórn og hann hefur átt frábæran feril sem sést best á því að hann hefur spilað fyrir félög á borð við Chelsea og Barcelona,“ sagði Guðjón í samtali við enska blaðið The Sentinel .

Þurfa að koma honum í gott form

„Ég held að Eiður geti töfrað fram ýmsa hluti fyrir Stoke og ég vona að honum takist það því stuðningsmennirnir munu elska hann ef hann gerir það. Það þarf að koma honum í gott form og þá mun hann gera frábæra hluti. Það þarf að líta vel eftir honum og passa upp á að keyra hann ekki út. Samherjar hans þurfa að koma boltanum til hans. Þú getur ekki beðið hann um að ná til boltans ef þú sparkar honum að hornfánanum. Eiður getur verið duglegur og pressað á leikmanninn með boltann en það er ekki hans stíll að elta boltann og tækla. Hann er fyrst og fremst leikmaður sem er alltaf yfirvegaður og rólegur.“

Tel Eið líka vera hvíta perlu

„Hann reynir ávallt að valda mótherjanum usla. Hann reynir að opna vörnina, ekki bara fyrir sjálfan sig heldur fyrir samherja sína. Þeir verða að skilja hans leik því hann er klókur spilari. Á Íslandi held ég að fólk tali um Eið sem einn af fimm bestu fótboltamönnum sem Ísland hefur alið af sér, við hlið manna eins og Ásgeirs Sigurvinssonar,“ segir Guðjón en Ásgeir var sem kunnugt er í stjórn Stoke þegar Guðjón stýrði liðinu.

„Ég held að Eiður vilji sanna getu sína og vilji sýna öllum hvað hann er enn fær um að gera. Það er annar leikmaður sem við nefnum „hvítu perluna“ en ég tel Eið líka vera hvíta perlu. Hann er hávaxinn, ljóshærður og myndarlegur. Það voru samt hæfileikar hans sem fótboltamanns sem urðu til þess að ég valdi hann í landsliðið.“

gummih@mbl.is