Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Þetta virðist hafa verið geðþóttaákvörðun eftir óvænt tap í gær.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Þetta virðist hafa verið geðþóttaákvörðun eftir óvænt tap í gær. Á föstudaginn fundaði ég með forráðamönnum félagsins um leikmannamálin fyrir næsta tímabil, hvaða leikmenn við ættum að fá til okkar og hverjum ætti að bjóða nýja samninga. Síðdegis í dag banka þeir uppá hjá mér og tilkynna að mér sé sagt upp störfum,“ sagði Kristján Guðmundsson knattspyrnuþjálfari við Morgunblaðið í gærkvöld.

Honum var í gær sagt upp hjá færeysku meisturunum HB frá Þórshöfn, en á sunnudaginn tapaði liðið óvænt á heimavelli, 1:4, fyrir næstneðsta liði deildarinnar, FC Suðurey.

HB er í öðru sæti, þremur stigum á eftir NSÍ, þegar sex umferðir eru eftir. „Ég tel enga spurningu um að liðið verði meistari, við eigum eftir heimaleik gegn toppliðinu og það er styrkur og sjálfstraust í leikmannahópnum til að klára þetta. Ég er mjög svekktur yfir þessari brottvikningu, sérstaklega vegna þess að rökin fyrir henni standast alls ekki. Leikurinn við FC Suðurey var lengst af mjög góður hjá okkur, við nýttum ekki fjölda færa og þeir skoruðu tvö mörk úr skyndisóknum í uppbótartíma.

En svona er umhverfið í færeyska fótboltanum, öll þrjú Þórshafnarliðin í úrvalsdeildinni hafa rekið þjálfarana á þessu tímabili, og ég er reynslunni ríkari eftir dvölina hérna í Þórshöfn,“ sagði Kristján sem hætti hjá Keflavík eftir síðasta tímabil, eftir fimm ár í starfi þar, og samdi til þriggja ára við HB.

Fer ekki í annað félag í Færeyjum

Kristján sagði að hann myndi ekki ráða sig aftur hjá færeysku félagi. „Nei, það geri ég ekki. Þetta hefur verið gríðarlega góð reynsla, fyrir mig sem manneskju, og sem þjálfara. En fótboltaumhverfið hér í Færeyjum er ansi langt á eftir því sem þekkist heima á Íslandi, þar sem það er voldugra á öllum sviðum,“ sagði Kristján og tók undir það að líklegast væri að hann myndi koma aftur heim til Íslands og halda áfram að þjálfa þar.

Aðstoðarmaður Kristjáns, Jóannes Jakobsen, fyrrum landsliðsmaður Færeyja, var einnig rekinn í gær. Í staðinn var Julian Hansen ráðinn út tímabilið með Hall Danielsen sér við hlið, en þeir eru heimamenn hjá félaginu. Í yfirlýsingu á vef HB segir að úrslit og leikur liðsins hafi ekki verið viðunandi og því hafi verið gripið til þessa ráðs.