Eyleifur Ísak Jóhannesson
Eyleifur Ísak Jóhannesson
Skagamaðurinn Eyleifur Ísak Jóhannesson var um helgina valinn einn af þremur þjálfarum ársins hjá sambandi sundþjálfara í Danmörku.

Skagamaðurinn Eyleifur Ísak Jóhannesson var um helgina valinn einn af þremur þjálfarum ársins hjá sambandi sundþjálfara í Danmörku. Eyleifur er yfirþjálfari hjá Aalborg Svømmeklub en undir hans stjórn hafa margir ungir sundmenn náð eftirtektarverðum árangri. Veitt eru þjálfaraverðlaun fyrir fullorðinsflokk, unglingaflokk og yngriflokk. Eyleifur var valinn þjálfari ársins í yngsta aldursflokknum, fyrir drengi 16 ára og yngri og stúlkur 14 ára og yngri. Mie Nilsen, 13 ára sundkona í Aalborg Svømmeklub, hefur náð gríðarlega góðum árangri hjá Eyleifi. Hún vann til 7 gullverðlauna á danska unglingameistaramótinu. Hún náði m.a. lágmarki fyrir Evrópumót fullorðinna í 100 metra baksundi 1.02,34 sek. Sá tími hefði dugað til silfurverðlauna á EM unglinga sem fram fór í sumar en Mie er of ung til þess að taka þátt á því móti.

Eyleifur þjálfaði hjá ÍA á Akranesi og Ægi í Reykjavík áður en hann hélt til Danmerkur árið 2008. seth@mbl.is