Hvernig er hægt að stórauka tekjur af ferðaþjónustu á Íslandi? Þessi spurning hefur trúlega aldrei leitað eins mikið á fólk í ferðaþjónustu og nú þegar auknar gjaldeyristekjur þurfa að koma þjóðinni upp úr hjólförunum. Samtök ferðaþjónustunnar tóku málið fyrir á aðalfundi sínum fyrr á þessu ári og buðu til fundarins m.a. Marina Krause, fyrrverandi ferðamálastjóra Finnlands, til þess að skýra frá því hvernig Finnar fóru að því að komast upp úr sinni kreppu í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar með því m.a. að stórauka ferðaþjónustu yfir veturinn. Á þessum tíma var nánast engin ferðaþjónusta yfir veturinn í Finnlandi, gríðarlegur halli á ríkissjóði og ástandið almennt slæmt. Samt sem áður tók finnska ríkisstjórnin þá ákvörðun að stórauka fé til vöruþróunar í vetrarferðamennsku og markaðssetningu hennar og með samvinnu opinberra aðila og fyrirtækjanna í greininni tókst verkefnið svo vel að í dag hafa Finnar meiri tekjur af ferðaþjónustu yfir veturinn en yfir sumarið.
Allt þetta kostaði mikla vinnu, mikið fé, mikla samræmingu og þolinmæði en það margborgaði sig. Við getum mikið af Finnum lært. Það er alveg ljóst að á Íslandi er vetrarferðamennska eitt stærsta tækifæri þjóðarinnar til verðmætasköpunar. Um land allt eru fjárfestingar sem eru illa nýttar utan háannatímans. Ýmsir augljósir kostir eru fyrir vetrarferðamennsku, s.s. heilsutengd ferðaþjónusta í víðum skilningi, funda- og ráðstefnuhald, ævintýraferðir og ýmsar vetraríþróttir en Marina Krause sagði að það hefði fyrst þurft að auka sjálfstraust Finna og láta þá trúa því að myrkur og kuldi væri ekki endilega fráhrindandi. Það kom fram í máli hennar að brýn nauðsyn væri á gæðavottunum hjá fyrirtækjunum og stórauknum rannsóknum. Hér á landi er að fara af stað verkefni sem lýtur að gæðavottunum og er í samvinnu opinberra aðila og greinarinnar og mun skipta miklu máli í íslenskri ferðaþjónustu þegar til framtíðar er litið. Þegar litið er til rannsókna er öllum ljóst að ferðaþjónustan hefur orðið illilega útundan í þeim efnum og munu stjórnvöld vera búin að átta sig á því. Það hefur ennfremur komið í ljós að ferðaþjónustufyrirtæki eiga lítinn aðgang að nýsköpunarfé. Það er því spurning hvenær stjórnvöld ætla að hætta að tala um að ferðaþjónustan eigi að leika stórt hlutverk í gjaldeyrisöflun og atvinnusköpun í framtíðinni og sjá til þess að greinin eigi eðlilegan aðgang að þeim sjóðum sem atvinnulífinu stendur til boða. Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar hafa aukist gríðarlega mikið síðustu árin og er ferðaþjónustan orðin ein af þremur mikilvægustu atvinnugreinum landsins hvað gjaldeyristekjur varðar. Með meiri vetrarferðamennsku og þar með betri nýtingu fjárfestinga munu tekjur stóraukast og heilsársstörfum fjölga og munu þau viðbótarstörf kosta mun minna en víða er reyndin. Það þarf mikla fagmennsku til að þessi framtíðarsýn nái fram að ganga þar sem tryggja þarf að náttúrunni, helstu söluvöru ferðaþjónustunnar, verði ekki misboðið, tryggja þarf öryggi ferðamanna með því að gæta þess að þeir sem reka ferðaþjónustufyrirtæki kunni til verka og uppfylli eðlilegar kröfur. Fyrirtækin þurfa að sama skapi að búa við stöðugt og gott rekstrarumhverfi. Botnlausar skattahækkanir á t.d. eldsneyti og áfengi og stöðugar hækkanir launatengdra gjalda draga úr öllum vexti.
Samtök ferðaþjónustunnar hvetja stjórnvöld til þess að blása til sóknar og sjá til þess að skattkerfið og jafnrétti í rannsóknum og nýsköpun ýti undir hagvöxt og endurreisn í efnahags- og atvinnulífi. Með samstilltu átaki fyrirtækja og stjórnvalda getum við aukið hag þjóðarinnar með því að efla ferðaþjónustuna – tækifærin til vaxtar eru til staðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.