Jóga hefur breiðst út um víða veröld og sífellt fjölgar þeim sem prófa eða tileinka sér hverskonar jóga og er það vel, enda bæði um líkamlega hreyfingu að ræða sem og andlega slökun. Jóga snýst um að skapa jafnvægi hugar og líkama.
En jóga er ekki bara eitthvað eitt, jóga er margskonar og misjafnt hvað hverjum hentar þegar kemur að því að tileinka sér jógaiðkun.
Til glöggvunar fyrir þá sem vilja komast að því hver munurinn er á einu jóga og öðru, er tilvalið að fara inn á vef jógakennarafélags Íslands, jogakennari.is
Þar er spurningunni Hvað er jóga? svarað með því að segja lítillega frá hinum sex hefðbundnu grunngreinum jóga.
Þessar grunngreinar eru Hatha jóga, Karma jóga, Bhakti jóga, Raja jóga, Kundalini jóga og Jnana jóga.
Af þessum sex grunngreinum er Hatha jóga sú sem hefur náð hvað mestum vinsældum á Vesturlöndum en þar eru ákveðnar jógastöður (84 talsins), öndun og slökun í fyrirrúmi. Í Bhakti jóga eru aftur á móti notaðar möntrur, söngur og bænir. Raja jóga er notað til sjálfsuppgötvunar og þar er mikið um kraftmiklar teygjur.