Skoraði Almarr Ormarsson skoraði sigurmark Framara í gærkvöldi og á hér í höggi við Brynjar Örn Guðmundsson, varnarmann Keflvíkinga.
Skoraði Almarr Ormarsson skoraði sigurmark Framara í gærkvöldi og á hér í höggi við Brynjar Örn Guðmundsson, varnarmann Keflvíkinga. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Stefán Stefánsson ste@mbl.is Framarar eiga enn veika von um að næla sér í Evrópusæti. Það, ásamt heiðrinum af að vinna leiki, var nóg til að vinna Keflavík 2:1 í Laugardalnum í gærkvöldi en það var lokaleikur 19. umferðar.

Á vellinum

Stefán Stefánsson

ste@mbl.is

Framarar eiga enn veika von um að næla sér í Evrópusæti. Það, ásamt heiðrinum af að vinna leiki, var nóg til að vinna Keflavík 2:1 í Laugardalnum í gærkvöldi en það var lokaleikur 19. umferðar.

Keflvíkingar með Hauk Inga Guðnason í fremstu víglínu létu samt hafa fyrir sér og herjuðu oft hressilega á sterka og stæðilega vörn Fram en hún var nokkrum númerum of stór.

Blautur völlurinn bauð upp á skot, sem gætu fleytt kerlingar í markið enda byrjaði leikurinn af krafti með nokkrum bylmingsskotum sem flest voru heimamanna en síðan varð meiri barningur. Framarar voru þó beittari og betri við að byggja upp sóknir á meðan flestar sóknir Keflavíkinga strönduðu á Jóni Guðna Fjólusyni og Kristjáni Haukssyni, varnarjöxlum Fram, enda of mikið gert af því að senda langt fram og treysta á sprett Hauks Inga Guðnasonar. Hann er fljótur en ekki svona fljótur. Keflvíkingar þéttu vörnina eftir hlé og þegar Framarar sluppu fyrir eftir flumbrugang Kristjáns fyrirliða, þegar minnstu munaði að hann missti Keflvíking inn fyrir vörnina, var eins og heimamönnum væri nokkuð brugðið. Þeir jöfnuðu sig þó en færunum í leiknum fjölgaði ekki því gestirnir voru komnir inn í leikinn en tókst ekki að sjá við Almari Ormarssyni í lokin.

„Við ætluðum að sækja hratt og pressa stíft,“ sagði Almarr. „Mér fannst það ganga ágætlega og við sköpuðum okkur fullt af færum en gekk ekki alveg nóg að gera út um þau því það var svo sem erfitt að eiga við þau í bleytunni. Ég er viss um að Keflvíkingar hafa ætlað að halda í eitt stig í seinni hálfleik en við vorum þolinmóðir og spiluðum skynsamlega, héldum áfram að sækja og náðum að gera út um leikinn, sem skiptir öllu máli.“

Fram á möguleika á að ná í fjórða sæti deildarinnar, sem gæfi sæti í Evrópudeildinni. „Það væri auðvitað draumur og það er möguleiki ef liðin fyrir ofan okkur misstíga sig en ég held að við þurfum að treysta of mikið á aðra. Það eru níu stig í pottinum og það væri ekki ónýtt að taka þau öll en sjáum hvað setur. Um mitt mót gekk ekki nógu vel þegar við misstum menn í klaufaleg bönn og meiðsli en það er engin afsökun og við áttum að gera betur. Við duttum í smálægð en sem betur fer rifum við okkur upp úr henni og það er bara að sjá hvert það skilar okkur,“ bætti Almarr við.

Fram – Keflavík 2:1

Laugardalsvöllur, Pepsi-deild karla, 19. umferð, mánudag 13. september 2010.

Skilyrði : Norðvestan andvari og rigning framan af. Hiti um 9 stig.

Skot : Fram 16 (10) – Keflavík 10 (6).

Horn : Fram 6 – Keflavík 4.

Lið Fram : (4-3-3) Mark : Hannes Þór Halldórsson. Vörn : Daði Guðmundsson, Kristján Hauksson, Jón Guðni Fjóluson, Samuel Tillen. Miðja : Jón Gunnar Eysteinsson, Almarr Ormarsson, Halldór Hermann Jónsson. Sókn : Tómas Leifsson (Jón Orri Ólafsson 88.), Ívar Björnsson, Josep Tillen (Hlynur Atli Magnússon 73.).

Lið Keflavíkur : (4-3-3) Mark : Ómar Jóhannsson. Vörn : Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Haraldur Freyr Guðmundsson, Brynjar Örn Guðmundsson. Miðja : Hólmar Örn Rúnarsson, Guðmundur Steinarsson, Andri Steinn Birgisson (Arnór Ingvi Traustason 82.). Sókn : Hörður Sveinsson, Haukur Ingi Guðnason(Magnús Þórir Matthíasson 70.), Magnús Sverrir Þorsteinsson (Bojan Stefán Ljubicic 82.).

Dómari : Þóroddur Hjaltalín – 5.

Áhorfendur : 707.

Þetta gerðist á Laugardalsvelli

1:0 36. Halldór Hermann Jónsson fékk boltann frá Ívari Björnssyni rétt utan vítateigs og lét vaða á markið. Boltinn skaust áfram og Ómar Jóhannsson í marki Keflavíkur var of seinn til.

1:1 43. Sjálfsmark. Góð sókn Keflvíkinga upp vinstri kantinn þar sem Guðjón Árni var mættur og þrumaði fyrir markið, Hannes náði að slá boltann frá markinu en hann fór í Jón Guðna Fjóluson og í mitt markið.

2:1 77. Hlynur Atli Magnússon kom með boltann upp völlinn og gaf síðan til hægri á Almarr Ormarsson , sem lagði hann fyrir sig og þrumaði í vinstra hornið frá hægra vítateigshorni.

Gul spjöld:

Tómas (Fram) 52. (leikaraskap), Guðmundur (Keflavík) 52. (brot), Magnús Þórir (Keflavík) 87. (brot).

Rauð spjöld:

Magnús Þórir (Keflavík) 90. (brot, tvö gul spjöld).

MMM

Enginn.

MM

Enginn.

M

Kristján Hauksson (Fram)

Halldór Hermann Jónsson (Fram)

Jón Gunnar Eysteinsson (Fram)

Almarr Ormarsson (Fram)

Ívar Björnsson (Fram)

Jón Guðni Fjóluson (Fram)

Tómas Leifsson (Fram)

Ómar Jóhannsson (Keflavík)

Guðjón Árni Antoníusson (Keflavík)

Haraldur F. Guðmunds. (Keflavík)

Magnús S. Þorsteinsson (Keflavík)

Hólmar Örn Rúnarsson (Keflavík)

Haukur Ingi Guðnason (Keflavík)

* Hjálmar Þórarinsson var fjarri góðu gamni og lék ekki með Fram gegn Keflavík í gærkvöldi því hann á við meiðsli að stríða.

* Haukur Ingi Guðnason var í byrjunarliði Keflavíkur í fyrsta sinn í sumar. Hann er að stíga upp úr langvinnum meiðslum, gaman að sjá að kappinn er að ná sér.

Barnaleg mistök hjá okkur

„Við afhendum Frömurum boltann og þeir skora,“ sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Keflavíkinga eftir 2:1 tap fyrir Fram í Laugardalnum í gærkvöldi. „Haukur Ingi færði okkur auðvitað hraða og gæði, sem við höfum saknað í sumar svo að við spiluðum ágætlega en það er oft í svona leikjum þegar hratt er leikið og leikur jafn að liðið sem gerir færri mistök stendur uppi sem sigurvegari og við gerum bara hreint út sagt barnaleg mistök, sem maður á ekki að sjá hjá mönnum á þessu getustigi.“ ste@mbl.is