Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Danska lögreglan sagði í gær að henni hefði ekki enn tekist að bera kennsl á mann sem var handtekinn í Kaupmannahöfn á föstudag vegna gruns um að hann hefði sprengt sprengju á hóteli í Kaupmannahöfn. Lögreglan telur að maðurinn hafi verið einn að verki en ekki er vitað hvað vakti fyrir honum.
Að sögn lögreglunnar gerði maðurinn allt sem hann gat til að koma í veg fyrir að hægt yrði að bera kennsl á hann. Maðurinn er einfættur og er m.a. sagður hafa fjarlægt framleiðslunúmer af gervifæti sem hann notaði. Hann var ekki með nein persónuskilríki, engin greiðslukort og engan farsíma. Talið er að hann hafi notað þrjú nöfn og oft skipt um föt og breytt útliti sínu meðan hann dvaldi í Kaupmannahöfn.
Maðurinn er sagður á þrítugsaldri og tala frönsku. Eitt af því fáa sem lögreglan hefur fengið upp úr honum er að hann sé grænmetisæta og hann óskaði eftir því að fá Biblíuna og Kóraninn í fangaklefann.
„Við höfum ekki fundið neinar vísbendingar um að maðurinn hafi haft samband við aðra,“ sagði lögregluvarðstjórinn Svend Foldager.
Lögreglan er að rannsaka yfir 50 ábendingar sem hún hefur fengið frá almenningi eftir að birtar voru myndir af manninum úr eftirlitsmyndavél.
Lögreglan er einnig að rannsaka skammbyssu og skothylki sem fundust á hótelherbergi mannsins.
Dönsk yfirvöld hafa ekki viljað veita upplýsingar um hvers konar sprengju maðurinn var með og aðeins sagt að þyngd sprengiefnisins hafi verið tæpt kíló. Að sögn danska ríkisútvarpsins hafa m.a. komið fram vísbendingar um að maðurinn kunni að hafa ætlað að fremja hryðjuverk vegna Múhameðsteikninganna sem birtar voru í Jyllands-Posten .
- Maðurinn er m.a. sagður hafa fjarlægt framleiðslunúmer af gervifæti sínum.