Áköfustu stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa í gegnum tíðina beitt ýmsum röksemdum málstað sínum til stuðnings.

Áköfustu stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa í gegnum tíðina beitt ýmsum röksemdum málstað sínum til stuðnings. Í eina tíð var til að mynda vinsælt að halda því fram að Norðmenn mundu enda inni í ESB og þá væri vissara fyrir Ísland að sitja ekki eftir fyrir utan.

Þessi röksemd hefur aldrei verið gæfuleg en hefur sjaldan hljómað verr en nú. Ný skoðanakönnun sýnir að andstaða við aðild að ESB fer vaxandi í Noregi. Þar er staðan nú þannig að nær tveir af hverjum þremur eru andvígir aðild.

Ef horft er til sumra þeirra sem þegar hafa sagt sig Evrópusambandinu á hönd er staðan litlu skárri fyrir aðildarsinna. Ný könnun meðal Breta sýnir að af þeim sem taka afstöðu vilja nær 60% að Bretland fari úr ESB.

Öllu minni gæti áhuginn á aðild að Evrópusambandinu tæpast verið í þessum tveimur nágrannaríkjum okkar.

Það er margt við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu að athuga, enda ljóst að hagsmunir Íslands liggja ekki í aðild. Við bætist að tímasetning aðildarumsóknar er alveg einstaklega óheppileg.

Ísland hefur flest annað við tímann að gera nú en eiga í aðlögunarviðræðum og átökum um aðild. Þá er sérkennilegt að íslenskir ráðamenn telji sérstaka ástæðu til að sækjast eftir aðild nú, einmitt þegar áhugi nágranna okkar á aðild er í lágmarki.