Aðildarviðræður okkar við Evrópusambandið ágerast, og fleiri efasemdir skjóta upp kollinum. Ein ný er þessi:
Ef það er satt sem sagt er, að báðar höfuðgreinar fagurbókmenntanna, á Íslandi sem og á öðrum Vesturlöndum, nefnilega ljóðið og skáldsagan, séu nú að riða til falls, með nýjum og minna bókmenntasinnuðum kynslóðum, svo lítið verði eftir nema unglingaljóð og spennusögur, er þá ekki að hverfa eitt af helstu haldreipum aðildarþjóða innan ESB, við að árétta menningarlega sérstöðu sína og þar með að hindra að þær verði algerum Evrópusamruna að bráð? En með Evrópusamruna á ég við þá stefnu í ESB að vilja breytast í eitt stórríki þar sem aðildarríkin hverfi alveg sem sjálfstæðar einingar.
Þetta er kannski meira áhyggjuefni fyrir aðildarþjóðir sem hafa ekki einkanlega þjóðtungu; og hafa að því leyti minni sérstöðu eftir til að verja; svosem: Frakka + Belga, Þjóðverja + Austurríkismenn, og Breta + Íra; en síður fyrir aðildarþjóðir með sér þjóðartungur innan sambandsmarkanna, svosem Spánverja, Portúgala, Ítali, Grikki, Ungverja, Rúmena, Finna, Eista, Svía, Letta, Litháa, Pólverja, Tékka, Slóvaka, Slóvena og Dani. Og þá hugsanlega Íslendinga?
En það hefur lengi verið stefna ESB, gegnum Evrópuráðið, að reyna að styðja við ýmsar menningararfleifðir aðildarríkja sinna með fjárframlögum, til að stuðla að því að menningarleg sérstaða þeirra ríkja fari ekki halloka fyrir hinni auknu efnahagssamvinnu við ESB.
Ef litið er til sögu Íslendinga, virðist þó ekki ástæða til að óttast þetta, við fyrstu sýn: Hátimbraðasta fagurbókmenntahefðin okkar hefur reyndar ekki varað nema síðastliðin 200 ár; en fram að því voru skemmtirímur og fornkappa-spennusögur nægilegur efniviður til að sannfæra okkur og aðra um fjölbreytileika menningarlegrar sérstöðu okkar sem sérstakrar þjóðar.
Eða var það? Var það ekki einmitt þá, frá fjórtándu öld til nítjándu aldar, sem við vorum svo ísmeygilega sjálfsánægð með okkur sem óútvatnanlega þjóð, að við vorum talsvert sátt við að láta Dani, fjarlæga þjóð niðri við Mið-Evrópu, ráðskast með okkur, nokkurn veginn að vild sinni?
Svo virðist nefnilega hafa reynst eftir átjándu öldina, sem tungan og bókmenntirnar hafi orðið að færa sig sífellt meira í aukana, ef þær áttu að ná að melta hina sívaxandi alþjóðlegu þekkingarstrauma í þágu eigin þjóðar; til að hún færi ekki hreinlega á kaf í uppistöðulóni alþjóðavæðingar vestrænnar menningar; hvort sem í hlut áttu Íslendingar, Danir, Þjóðverjar, Englendingar eða fleiri.
Hvað er þá til ráða? Kannski ættum við fyrr að reyna að lappa upp á hrunið í okkar eigin þjóðarbókmenntum, áður en við förum að vonast eftir að eitthvert alþjóðabákn geri það fyrir okkur?
Raunar gæti virst sem stefna ESB í stuðningi við menningararfleifðir sínar miðaði fremur að því að deila og drottna (líkt og Sovétríkin gerðu með stuðningi sínum við héraðsbundna smáhópa, svosem í Lettlandi, til að koma í veg fyrir að þjóðin í heild færi að nýta sameiginlega tungu sína og bókmenntir sem vopn í sjálfstæðisátt). Því stuðningur ESB beinist einkum að sameiginlegum verðmætum sambandsins, svosem að viðhaldi fornra skrauthýsa. Því virðist ólíklegt að þeir færu að púkka upp á tungumálið okkar og bókmenntir ef við gerum það ekki sjálfir (nema þetta væri komið í algera niðurníðslu og órækt), heldur væru þeir líklegri til að veita peningum til viðhalds náttúruperlna sameiginlegrar ferðamennsku, svosem Geysis og Þingvallagljúfurs.
Eða þýddi það kannski nokkuð að biðja Dani um það forðum, eftir að sjálfstæðisbaráttan okkar hófst fyrir alvöru, að þeir fjármögnuðu endurreisn bókmennta okkar og tungu, þegar þær voru greinilega orðnar sem aðskilnaðarmeðul í sjálfstæðisbaráttunni?
Vera má að íslenskan yrði innan ESB álíka ómarktækt þjóðernistákn og færeyskan, grænlenskan, katalónskan og baskneskan eru nú. Og þar með um leið sjálft íslenska þjóðernið í heild sinni.
Höfundur er þjóðfélagsfræðingur og skáld.