Þróun Labyrinth eftir Guðrúnu Nielsen en sérstök útgáfa þess er á sýningu á Ítalíu.
Þróun Labyrinth eftir Guðrúnu Nielsen en sérstök útgáfa þess er á sýningu á Ítalíu.
Næstkomandi fimmudag verður opnuð í Grugliasco skammt utan við Tórínó á Ítalíu sýning á verkum evrópskra myndhöggvara, en sýningunni er ætlað að sýna fjölbreytni og þróun í höggmyndalist síðustu áratugi.

Næstkomandi fimmudag verður opnuð í Grugliasco skammt utan við Tórínó á Ítalíu sýning á verkum evrópskra myndhöggvara, en sýningunni er ætlað að sýna fjölbreytni og þróun í höggmyndalist síðustu áratugi. Alls eru á sýningunni um 150 verk ríflega þrjátíu myndlistarmanna, þar á meðal Guðrúnar Nielsen. Sýningin stendur til 6. nóvember.

Verk Guðrúnar á sýningunni heitir Labyrinth og er sérstök útgáfa af samnefndu verki hennar sem er nú í Harold Martin grasagarðinum í Leicester á Englandi. „Á Ítalíu sýni ég fjóra veggi verksins af sjö og restin af verkinu eru krítarlínur á gólfi sem endurspegla verkið. Ég smíðaði verkið hér á Íslandi og sendi það síðan út, en þar er trégrind með strekktum striga sem ég mála með ójöfnum lit þannig að þegar gengið er í kringum það sést í gegnum strigann.“

Þegar Guðrún hefur unnið með form hingað til hefur hún jafnan hulið þau, en þetta mun í fyrsta sinn sem hægt er að sjá í gegnum þau, en það vísar í upprunalega verkið í grasagarðinum. „Í grasagarðinum gengur fólk í kringum verkið og inn í það og sér þá gróðurinn og liti blómanna í gegnum það,“ segir Guðrún, en verkið er um það bil 2,70 m á hæð og spannar 4 x 5 m gólfplan.

Sýnendur í Grugliasco eru um þrjátíu talsins eins og nefnt er, allt félagar í skúlptúrfélagi í Þýskalandi að sögn Guðrúnar. „Listamenn sendu inn umsóknir og síðan var valið úr þeim, en þetta er í fyrsta sinn sem ég sýni með þessum hópi. Þetta er svolítið öðruvísi skúlptúr en þegar ég hef tekið þátt í samsýningum á Englandi, ekki eins fígúratívur og mér finnst ég tengjast þessum þýsku og ítölsku listamönnum betur.“

Guðrún verður ekki viðstödd opnunina, því hún þarf að vera við aðra opnun, á verkinu Changes sem sett hefur verið upp á Greenham Common í Berksskíri á Englandi.