Umræður Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, gerði Alþingi grein fyrir tillögum nefndarinnar.
Umræður Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, gerði Alþingi grein fyrir tillögum nefndarinnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Egill Ólafsson egol@mbl.is „Það má segja að þetta sé sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis,“ sagði Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar sem skipuð var til að skoða rannsóknarskýrslu Alþingis, þegar hann gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar.

Egill Ólafsson

egol@mbl.is

„Það má segja að þetta sé sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis,“ sagði Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar sem skipuð var til að skoða rannsóknarskýrslu Alþingis, þegar hann gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar. Kominn væri tími til að Alþingi hætti að vera verkfæri í höndum framkvæmdavaldsins.

Þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni varð tíðrætt um stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu.

„Meginniðurstaða okkar er að það verði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu og auka fagmennsku í undirbúningi löggjafar,“ sagði Atli. Hann sagði að nefndin vildi að Alþingi tæki starfshætti sína til endurskoðunar. „Og við segjum það að við viljum ekki að Alþingi sé verkfæri í höndum framkvæmdavaldsins.“

Atli sagði ljóst að stjórnvöld hefðu brugðist í aðdraganda hrunsins. Á það hefði skort að menn hefðu reynt að fá yfirsýn yfir stöðuna og meta umfang vandans. „Hver var í því? Enginn,“ sagði Atli.

Vegið að sjálfstæði þingsins

„Eitt af því versta í þessu var hvernig ráðherraábyrgðarkeðjan rofnaði, þ.e. hvernig ráðherrar gengu inn á verksvið annarra ráðherra og héldu frá þeim upplýsingum. Ef menn rýna í þetta þá er þarna vegið að undirstöðu þessa lýðræðislega skipulags sem þjóðin býr við. Það er líka vegið að sjálfstæði Alþingis og möguleikum þess til að iðka eftirlitsskyldu sína. Ef ráðherra er haldið utan við ákvarðanatöku hvernig getur hann þá sinnt skyldum sínum gagnvart Alþingi?“

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaformaður þingmannanefndarinnar, tók undir með Atla að Alþingi þyrfti að styrkja stöðu sína. Þingið væri ekki nægilega sjálfstætt í störfum sínum gagnvart framkvæmdavaldinu. Hún sagði að reynsla sín í þingnefndum sýndi að þingið hefði alla burði til að vinna sjálfstætt að samningu lagafrumvarpa. Nú væri það verkefni Alþingis að fylgja tillögum þingmannanefndarinnar eftir. Hún sagði mikilvægt að alþingismenn tækju alvarlega gagnrýni nefndarinnar á stjórnmálamenningu sem hér hefði viðgengist.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, sagði að mikil þörf væri á að taka vinnubrögð á Alþingi til endurskoðunar. Þau hefðu því miður ekki breyst. „Það er dapurlegt hve lítið hefur breyst í verklagi og starfsháttum Alþings þrátt fyrir hrun og þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.“

Ræða ákærurnar í dag
» Í gær var fyrst og fremst rætt á Alþingi um skýrslu þingmannanefndarinnar.
» Í dag hefja þingmenn umræður um tillögur um að fjórir ráðherrar verði ákærðir.
» Óljóst er hvenær umræðunni lýkur, en þingmenn segja málið kalla á ítarlega umræðu.