Eyjólfur Lárusson fæddist í Flatey á Breiðafirði 25. september 1936. Hann andaðist á heimili sínu 5. september 2010.

Foreldrar hans voru Lárus Eyjólfsson, f. 4.10. 1899, d. 22.1. 1983, og Halldóra Bjarnadóttir, f. 19.11. 1911, d. 28.1. 1998. Systkini Eyjólfs eru Elísabet, f. 6.7. 1932, Jón Sigurður, f. 9.2. 1934, d. 18.2. 1970, Bára, f. 4.3. 1942, Lára, f. 9.4. 1950.

Eyjólfur kvæntist árið 1963 Sigríði Vilborgu Ólafsdóttur, f. 29.12. 1937, úr Keflavík og eignuðust þau 3 börn en þau eru: 1) Halldóra, f. 15.3. 1963, maki Skúli Björnsson, f. 31.8. 1961, börn þeirra eru Móeiður Sif, f. 8.1. 1988, Lárus Þór, f. 23.1. 1991 og Halldór Bragi, f. 18.7. 1998. 2) Kristinn, f. 3.9. 1964, maki Valdís María Össurardóttir, f. 15.5. 1982, Kristinn á þrjú börn fyrir, þau eru: Kristjana Ylja, f. 15.11. 1989, Gabríel Freyr, f. 11.7. 1995, og Jón Kristfinnur, f. 30.7. 1997. 3) Margrét, f. 26.11. 1967, maki Magnús Gunnarsson, f. 7.1. 1967, dóttir þeirra er María, f. 4.9. 1992. Fyrir átti Sigríður Unnar Magnússon, f. 11.2. 1957, d. 2001. Eyjólfur og Sigríður skildu 1992. Seinni kona Eyjólfs er Hildur Ólafsdóttir, f. 27.6. 1945, en þau giftu sig í Vestmannaeyjum 2002. Fyrir átti Hildur fimm uppkomin börn, þau eru: Sigrún, f. 1964, Svava, f. 1967, Stefán, f. 1972, Styrmir, f. 1973 og Hildur Hödd, f. 1981.

Eyjólfur fluttist ungur úr Flatey með fjölskyldu sinni til Stykkishólms og ólst þar upp og stundaði þaðan sjómennsku. Fjölskyldan flutti síðan til Reykjavíkur og hóf Eyjólfur þar nám í Stýrimannaskólanum og lauk þaðan prófi. Á þessum tíma kynntist hann fyrri konu sinni, Sigríði, og hófu þau búskap í Keflavík. Eyjólfur stundaði hin ýmsu störf tengd fiskveiðum og -vinnslu. Hann var skipstjóri á hinum ýmsum bátum og var yfirverkstjóri hjá Hraðfrystihúsi Keflavíkur og endaði starfsferilinn, sem fiskmatsmaður hjá Sambandinu SÍF.

Útför Eyjólfs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 14. september 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi, það er svo ótrúlegt að þú sért dáinn en þú sofnaðir svefninum langa heima hjá þér en ekki á sjúkrahúsi því þú vildir helst fá að vera heima. Ég veit að þér líður vel núna en það er ótrúlegt til þess að vita að við fáum ekki að hitta þig aftur í þessari jarðvist en þinn tími var kominn og ég veit að amma, afi og Nonni bróðir þinn taka vel á móti þér. Við töluðum saman góða stund í síma daginn áður en þú kvaddir þennan heim og þú varst svo hress að heyra og spurðir mig hvað væri að frétta af okkur eins og þú gerðir alltaf en að þetta væri í síðasta sinn gat ég ekki ímyndað mér. Þú þurftir oft að fara inn á sjúkrahús síðustu árin vegna veikinda þinna en þú hafðir stórt hjarta bæði í orði og á borði.

Minningarnar streyma fram um flutninginn upp í Þverholt 16 en ég var þá aðeins fimm ára og húsið var svo stórt í mínum augum, sem þú hafðir byggt. Þegar við fjölskyldan fórum í ferðalög um landið, oft í litlum bíl, og tjölduðum okkar litla fjölskyldutjaldi var oft mikið fjör hjá okkur og þú fræddir okkur systkinin um okkar fallega land en þú þekktir alla staði og nöfnin á öllum fjöllunum. Þú fórst með okkur um Snæfellsnesið og sýndi okkur marga staði sem þér þótti svo vænt um því þangað áttir þú rætur þínar að rekja. Þér þótti alltaf vænt um Flatey á Breiðafirði, þar sem þú fæddist, en ólst upp í Stykkishólmi. Þú hefur ávallt unnið mikið og lagðir upp með að allir stunduðu sína vinnu. Ég var aðeins 13 ára gömul þegar þú útvegaðir mér vinnu í frystihúsinu, þar sem þú varst verkstjóri. Þú hafðir góðan húmor og komst oft með skemmtileg tilsvör.

Við Skúli og börnin okkar þrjú, Móeiður, Lárus og Halldór, geymum minninguna um þig í hjarta okkar um ókomin ár.

Ég þakka þér fyrir að hafa verið pabbi minn og minningin um þig lifir og við hittumst seinna.

Guð geymi þig, elsku pabbi minn.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Þín dóttir,

Halldóra.

Í dag kveðjum við góðan mann.

Leiðir okkar Eyjólfs lágu fyrst saman þegar ég fékk sumarvinnu í Stóru-Milljón (Hraðfrystihús Keflavíkur) fyrir hartnær 35 árum. Góð vinatengsl mynduðust strax frá fyrsta degi og héldust allar götur síðan. En að ég skyldi fá að ganga að eiga dóttur hans, Halldóru, var guðs gjöf. Börnin okkar þrjú Móeiður Sif, Lárus Þór og Halldór Bragi munu sárt sakna afa síns en góð vinatengsl hafa ávalt verið milli okkar allra.

Minningarnar um þennan góða mann munu lifa með okkur um ókomna tíð. Þær verða tómlegri Reykjavíkurferðirnar hjá okkur eftir að þín nýtur nú ekki lengur við. En gaman var að koma í heimsókn til ykkar Hildar og þiggja góðar veitingar.

Eyjólfur var góður vinur og gaman að ræða málin við hann. En hann fylgdist vel með málefnum líðandi stundar og hafði sínar skoðanir á hreinu og lét þær ávallt í ljós með hnyttnum tilsvörum.

Blessuð sé minning þín.

Þinn tengdasonur,

Skúli.