Haustið fer ekki vel í Pétur Stefánsson: Ósköp er hráslaga haustið herskátt í aðgerðum sínum; nú hristir það hrörnuð laufin af hálfnöktum greinum, og dreifir dropum úr skýjum dólgslega yfir bæinn. Og hálfdauð blómin híma hjálparlaus úti í garði.

Haustið fer ekki vel í Pétur Stefánsson:

Ósköp er hráslaga haustið

herskátt í aðgerðum sínum;

nú hristir það hrörnuð laufin

af hálfnöktum greinum,

og dreifir dropum úr skýjum

dólgslega yfir bæinn.

Og hálfdauð blómin híma

hjálparlaus úti í garði.

Nú þegar rokar og rignir

og ruslið fýkur um götur,

er gott að eiga athvarf

innan dyra í skjóli.

– Svo birtist vindsterkur vetur

með veðrin sín köldu og dimmu.

En svo kemur aftur til okkar,

ylríka langþráða vorið.

Ingólfur Ómar Ármannsson hefur mikið álit á kveðskap Péturs:

Honum Pétri hrósa verð,

hann er feikna slyngur,

laginn er við ljóðagerð

lipur hagyrðingur.

Strengi í hörpu stilla kann,

stökur margar semur,

andagiftin yfir hann

öllum stundum kemur.

Kristinn Tómasson hringdi og benti á að svarið hjá Eyjólfi ljóstolli í Vísnahorninu í gær hefði verið: „Ég þúa guð og góða menn, en þéra andskotann og yður!“ Kristinn bætti við: „Snilldin var mikil hjá Eyjólfi þegar hann svaraði þessu.“