Af hverju að láta gauf og dylgjur duga? Hvað tefur rannsókn?

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon reyndu með ummælum sínum opinberlega margoft að leiðbeina Rannsóknarnefnd Alþingis varðandi umfjöllun og niðurstöður í sínum störfum. Mætti nefna allmörg dæmi um þetta. Að sinni skulu kunnar hótanir Jóhönnu aðeins nefndar til sögunnar. Hún sagði oftar en einu sinni að ef ekki yrði fjallað nægjanlega af Rannsóknarnefnd Alþingis um einkavæðingu bankanna á sínum tíma myndi hún sjálf láta af stað rannsókn á þeim málum.

Nú vill þannig til að þessi tilteknu mál hafa verið rannsökuð og til eru um þær rannsóknir ýtarlegar skýrslur. Jóhanna hefur ekki upplýst hvort hún hefur lesið þær skýrslur. Vonandi fyrirgefst þótt það sé dregið í efa.

Morgunblaðið hefur áður tekið fram í ritstjórnargreinum að óþarfi sé og ógeðfellt að vera uppi með sífelldar hótanir um viðbótarrannsóknir á einkavæðingu bankanna. Vilji menn rannsaka þau mál betur, þá telur blaðið að það sé algjörlega sjálfsagt mál að slík rannsókn fari fram. Hinar sífelldu dylgjur og hótanir hljóta að benda til að Jóhanna viti að þar hafi ekki allar upplýsingar enn komið fram, þrátt fyrir þær rannsóknarskýrslur sem liggja fyrir. Ríkisstjórn Jóhönnu hefur setið í tæp tvö ár. Hún er hér eindregið hvött til þess að láta slíkar rannsóknir fara fram. Og upplýsa væntanlega rannsakendur um grunsemdir sínar strax í upphafi þeirrar aðgerðar. Auðvitað væri æskilegt að hún léti þess þegar getið opinberlega hvað hefði að hennar mati ekki verið rannsakað nægjanlega í síðustu rannsókn og hvað Rannsóknarnefnd Alþingis lét einnig hjá líða að rannsaka og snerti einkavæðingu banka. En jafnvel þótt hún treysti sér ekki til að upplýsa það, sem ekki er líklegt, ættu hún og Alþingi endilega að drífa af stað sérstaka rannsókn á einkavæðingu bankanna hið allra fyrsta.