Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Framundan eru merkingar á fjórum hvölum við landið til að reyna að fá upplýsingar um hegðan þeirra og ferðir. Merkin sem notuð eru verða stöðugt fullkomnari. Auk þess að mæla staðsetningu hvala gefa merkin nú upplýsingar um á hve miklu dýpi hvalirnir eru hverju sinni og fylgst er með hverri einustu köfun þeirra.
Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir að líklega verði 2-3 hrefnur merktar í haust og 1-2 hnúfubakar. Í gær fréttist af hnúfubökum í Ísafjarðardjúpi og er líklegt að reynt verði að skjóta gervihnattamerki í einn eða tvo þeirra.
„Af ýmsum ástæðum er brýnast að fá upplýsingar um ferðir hrefnunnar, en jafnframt hefur reynst erfiðast að afla þessara upplýsinga,“ segir Gísli. „Í vor var merkjum skotið í fjórar hrefnur, en við fengum aðeins strjálar sendingar frá einni þeirra og það nálægt merkingarstað í Faxaflóa. Árangurinn var því lítill, en vonandi næst betri árangur í haust.“
Grundvöllur ráðgjafar
Auk fræðilegs gildis segir Gísli mikilvægt að afla frekari upplýsinga um ferðir hrefnu vegna óvissu um fjölda stofna í Norður-Atlantshafi og landfræðileg mörk milli þeirra. Slík vitneskja sé mikilvægur grundvöllur ráðgjafar um nýtingu tegundarinnar. Þá eru upplýsingar um köfunartíðni mikilvægar til leiðréttingar á flugtalningum á hrefnu.Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á ferðum hvala eru unnar í samvinnu við danska aðila, sem taka til helminga þátt í kostnaði við gervihnattamerkin. Lætur nærri að hvert merki kosti um 250 þúsund krónur. Gervitunglamerkingarnar hafa að hluta til verið fjármagnaðar með styrkjum úr Tækjasjóði RANNÍS.
Athyglisverðar niðurstöður hafa fengist úr merkingum hvala hér við land. Nefna má sem dæmi að sendingar bárust í þrjá mánuði frá hnúfubak sem merktur var með gervitunglasendi í Eyjafirði 21 október 2009. Síðasta sendingin barst frá hnúfubaknum 20. janúar, en þá var hann staddur við norðausturjaðar Charlie Gibbs misgengissvæðisins á N-Atlantshafshryggnum, um þúsund km vestur af Írlandi.
Meðalsundhraði hvalsins eftir að hann yfirgaf Selvogsbanka var rúmlega 4 sjómílur á klukkustund. Alls hafði hvalurinn þá lagt að baki a.m.k. 6.320 km frá því að hann var merktur í Eyjafirði 21. október 2009.
Á tímabilinu 11. nóvember til 3. desember var hnúfubakurinn á litlu svæði í Stakksfirði rétt utan við hafnirnar í Keflavík, Njarðvík og Vogum. Helgina 20.-21. nóvember tókst með samvinnu Hafrannsóknastofnunarinnar og hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar að finna og ljósmynda hvalinn í Stakksfirði. Upplýsingarnar nýttust fyrirtækinu til skoðunarferða með hundruð ferðamanna.
» Hafró hefur í sumar tekið sýni úr langreyðum, sem komið hefur verið með að landi í Hvalfirði. Unnið verður úr þessum sýnum á næstu mánuðum.
» Hefðbundnar hvalatalningar eru ekki á áætlun fyrr en eftir 2-3 ár.