Óvissa ríkir um framkvæmd átaks sem unnið er að um sameiningu sveitarfélaga eftir að Ögmundur Jónasson, nýr ráðherra sveitarstjórnarmála, sagði á fundum sveitarstjórnarmanna um helgina að hann væri ekki talsmaður þess að þvinga fram sameiningu.
Samstarfsnefnd á vegum ráðuneytis sveitarstjórnarmála og Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir forystu Flosa Eiríkssonar, fyrrverandi bæjarfulltrúa í Kópavogi, hefur í heilt ár unnið að undirbúningi tillagna um nýtt stórátak í sameiningu sveitarfélaga. Leitað hefur verið eftir hugmyndum heimamanna og ýmsar tillögur settar á flot.
Kristján L. Möller hugðist fylgja málinu eftir með tillögu til Alþingis um áætlun um fækkun sveitarfélaga til næstu kosninga. Ögmundur Jónasson sem nú er tekinn við embættinu segist fylgjandi því að sveitarfélögin verði efld og þau stækkuð og bendir á að skýrsla nefndar sem nú starfar verði lögð fyrir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það sé hins vegar grundvallaratriði að farið skuli að vilja íbúa viðkomandi sveitarfélags um það efni.
Ögmundur segir að mörg mál séu á hreyfingu í þjóðfélaginu. Hann vekur athygli á því að flytja eigi aukin verkefni til sveitarfélaganna. Það leggi auknar kröfur á herðar þeirra um fjárhagslega burði og getu til að veita aukna þjónustu Það kunni að breyta afstöðu margra. 9