Í Laugardalnum Auðlindir skulu vera í eigu Íslendinga, segir innherji.
Í Laugardalnum Auðlindir skulu vera í eigu Íslendinga, segir innherji. — Morgunblaðið/Ómar
Nú hefur hið háa Alþingi lokið því sem kallað hefur verið pólitískt uppgjör hrunsins. Hvort niðurstaða málsmeðferðarinnar er ásættanleg er annarra að meta og geta þingmenn því tekið til við hið daglega amstur á ný. Næst á dagskrá er fjárlagagerð.

Nú hefur hið háa Alþingi lokið því sem kallað hefur verið pólitískt uppgjör hrunsins. Hvort niðurstaða málsmeðferðarinnar er ásættanleg er annarra að meta og geta þingmenn því tekið til við hið daglega amstur á ný. Næst á dagskrá er fjárlagagerð. Það væri óskandi, þjóðarinnar vegna, að sú vinna byggðist á rökhugsun og yfirvegun, að tekið verði á kjarna mála og rótum vandans.

Þrátt fyrir að þriðja endurskoðun samstarfssamnings stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virðist hafa gengið áfallalaust fyrir sig, verðbólga á hraðri niðurleið og krónan hafi styrkst lítillega síðustu mánuði, er mikið verk óunnið.

Í sumum tilfellum hrannast verkin síðan upp hálfkláruð og ómarkvisst unnin, svo liggur við að betur hefði verið heima setið en af stað farið. Misvísandi skilaboð í lánamálum heimila og fyrirtækja vekja fleiri spurningar en þeim er ætlað að svara. Ómarkviss niðurskurður ríkisútgjalda hefur haldist í hendur við metfjölgun opinberra starfsmanna svo erfitt er að greina skýra stefnu, sé hún til. Þóknanleg fjárfesting og uppbygging er handvalin, og þó útlendingum sé samkvæmt lögum heimilt að leggja fjármuni sína í uppbyggingu hér vilja stjórnvöld síður sjá þá peninga. Auðlindir skulu vera í eigu Íslendinga, burtséð frá því hvert rentan fer. Hér verður ekki gert lítið úr þeim mikla efnahagsvanda sem stjórnvöld standa frammi fyrir, en það hlýtur að vera lágmarkskrafa að skýr stefna sé mótuð, góð eða slæm, svo einstaklingar og fyrirtæki geti hagað sínum áætlunum í samræmi við hana.

Gert er ráð fyrir því að skorið verði niður um 30 milljarða á næsta ári og að skatttekjur aukist um 10 milljarða, með nýjum skattstofnum og enn frekari hækkun álagningar á þá sem fyrir eru. Samdráttur í landsframleiðslu og spár um áframhald á honum gefa skýra vísbendingu um ávinning þeirrar skattastefnu. Innlend fjárfesting er í lamasessi, og virðast ríkisskuldabréf vera einn fárra raunhæfra valkosta. Gjaldeyrishöftin viðhalda þessari pattstöðu, en ríkissjóður situr eins og púkinn á fjósbitanum og nýtur góðs af ódýrustu fjármögnun sem boðist hefur frá því skipulegur fjármálamarkaður var settur á laggirnar hér á landi. Þannig sogar ríkið til sín síaukinn hlut tekna fólks með skattlagningu, og sparifé þess með útgáfu nýrra skulda, til þess að fjármagna hallarekstur upp að því marki sem skattahækkanir duga ekki fyrir. Það er kannski stefnan?